Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að mjög alvarlegt ástand geti skapast í kringum næstu helgi, þegar að áhrif verkfalla félagsmanna Eflingar fara að koma fram og að undanþágur vegna lyfjadreifingar séu óútfæraðar.
Verkföllin sem nú ná til Íslandshótela, hótela Berjaya hótelkeðjunnar, Edition hótelsins, Samskipa, Skeljungs og Olíudreifingar hófust á ný á miðnætti, eftir að aðgerðum hafði verið frestað fyrir helgi.
Ólafur er ómyrkur í máli í garð stjórnar Eflingar. „Almennt er þetta gríðarlegur ábyrgðarhluti hjá þessu stéttarfélagi, Eflingu, sem stendur eitt utan þess heildarsamkomulags sem hefur náðst á lang stærstum hluta almenna vinnumarkaðarins og gerir óraunhæfar og óbilgjarnar kröfur og boðar til aðgerða sem geta valdið alveg gífurlegu tjóni.“
Ólafur segir að verkföllin sem hófust á hádegi á miðvikudag hafi þegar verið farin að hafa áhrif á dreifingu matvæla, lyfja og hjúkrunarvara. Hann segir einnig að þrátt fyrir að undanþágur fyrir þá sem sinna lyfjadreifingu hafi verið samþykktar, liggi ekki fyrir upplýsingar um hvernig eigi að útfæra þær undanþágur.
Ólafur segir Félag atvinnurekenda skoða sína stöðu gagnvart verkbanninu, en sýni afstöðu Samtaka atvinnulífsins í málinu mikinn skilning og stuðning.