Undir áhrifum, í óökuhæfum bíl og ekki í belti

Rétt sunnan við brú yfir Laxá í Kjós missti ökumaðurinn …
Rétt sunnan við brú yfir Laxá í Kjós missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin rann yfir á rangan vegarhelming og fór út af veginum, lenti á stórum steini og valt. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Banaslys sem varð í byrjun nóvember árið 2021 á Hvalfjarðarvegi í Kjós varð vegna þess að ökumaðurinn missti stjórn á bifreið sinni í hálku með þeim afleiðingum að hún fór út fyrir veginn og valt. 

Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem var birt fyrir helgi. 

32 ára karlmaður, sem var farþegi í bifreiðinni, lést í slysinu en bæði hann og ökumaðurinn köstuðust út úr bifreiðinni í veltunni. Þeir voru hvorugur spenntir í öryggisbelti. 

Að mati rannsóknarnefndarinnar hefði farþeginn sennilega lifað slysið af hefði hann verið spenntur í öryggisbelti. 

Fíkniefni greindist í blóði ökumannsins

Slysið varð síðdegis 3. nóvember við félagsheimilið Dreng í Kjós.

Rétt sunnan við brú yfir Laxá í Kjós missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin rann yfir á rangan vegarhelming og fór út af veginum, lenti á stórum steini og valt. Þá kviknaði í bifreiðinni sem gjöreyðilagðist. 

Í skýrslunni segir að ökumaðurinn hafi ekið eftir veginum í 10 til 15 mínútur við ágætis veður. 

Hann hafi hægt vel ferðina áður en hann ók yfir brúna og verið að auka aftur hraðann er hann missti skyndilega stjórn á bifreiðinni.

Þá segir að ökumaðurinn hafi ekki orðið var við hálku á veginum fyrr en slysið varð. Hann hlaut alvarlega áverka og greindist fíkniefni í blóði hans. 

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að sú hálka sem skapaðist þarna hefði bæði verið staðbundin og erfitt að sjá fyrir. 

Í skýrslunni segir að bifreiðin hafi verið pallbifreið af gerðinni Ford F250 nýskráð árið 2001. Hún hafi síðast verið færð til skoðunar í ágúst 2019 og því ekki með gilda skoðun er slysið varð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka