„Yfirmanna að útskýra þetta viðbjóðslega framferði“

Sólveig Anna kveður forystu Samtaka atvinnulífsins komna í stríð við …
Sólveig Anna kveður forystu Samtaka atvinnulífsins komna í stríð við hátt í 21.000 manns. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Forysta Samtaka atvinnulífsins er komin í stríð við hátt í 21.000 manna hóp verka- og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu, komin í stríð við vinnuaflið sem knýr allt áfram og það er merkilegt að verða vitni að því,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is en hún hefur setið fund undanþágunefndar stéttarfélagsins síðan snemma í morgun og rætt við fjölmiðla inn á milli um stöðu mála í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins þar sem verkbann stendur nú hugsanlega fyrir dyrum.

Sólveig vill ekki spá neinu um hvernig atkvæði falli í kosningu SA um verkbannið, „ég ætla ekki að þykjast vita hver hugur manna innan Samtaka atvinnulífsins er, en það verður auðvitað yfirmanna fyrirtækjanna að útskýra þetta viðbjóðslega framferði ef þetta verður niðurstaðan og ég get ekki ímyndað mér að það verði ánægjuleg samskipti við vinnandi fólk í fyrirtækjunum“, segir formaðurinn.

„Ég hef ríkt hugmyndaflug“

Kveður Sólveig samþykkt verkbanns jafngilda stríðsyfirlýsingu í garð forystu Eflingar, þeirra félaga stéttarfélagsins sem þegar hafi lagt niður störf og þeirra 20.609 félagsmanna sem haldi verðmætaframleiðslu höfuðborgarsvæðisins gangandi með vinnu sinni. „Hvað menn sjá fyrir sér verði þetta niðurstaðan, ja, ég hef ríkt hugmyndaflug en jafnvel mitt hugmyndaflug getur ekki séð það fyrir,“ segir hún og kveðst eiga erfitt með að ímynda sér hvernig eigendur og yfirmenn fyrirtækja ætli sér að útskýra niðurstöðuna verði hún verkbann á félagsfólk Eflingar.

Mun félagsfólk njóta greiðslna úr sjóðum félagsins komi til verkbanns?

„Nei,“ svarar Sólveig afdráttarlaust, „það er ekki Eflingar að axla ábyrgð á sturlun forystumanna Samtaka atvinnulífsins þannig að það verður ekki svo.

Hvað með síðasta tilboð SA til Eflingar, hvað var þar í?

„Við komum að borðinu öll af vilja gerð til að ná samningum, við höfðum fallið frá framfærsluuppbótinni og vorum að ræða breytingar á launatöflunni. Það sem við vorum að ræða þar var innan ramma kostnaðar Samtaka atvinnulífsins við önnur félög sem samningar hafa náðst við. Það síðasta sem kom frá SA eftir að við töldum að þetta væri farið að mjakast var að bjóða okkur að fyrsta árið í launatöflunni fengi 2.000 króna umframhækkun þegar horft er til SGS [Starfsgreinasambandið]-samningsins,“ segir Sólveig.

Fimmta árið í launatöflunni skyldi hins vegar greiða fyrir þessa hækkun með 4.000 krónum lægri hækkun þegar horft væri til niðurstöðu SGS-samningsins. „Og ekkert annað,“ segir hún af téðu tilboði.

Svo breyttist allt

Sólveig talaði um nýjan tón í viðræðunum um helgina en í gær hefði svo allt breyst. Hvaða breytingar voru þar á ferð?

„Við [Efling] vorum mjög samningsmiðuð og öll af vilja gerð, töldum að við værum að mjakast áfram þótt auðvitað væri óvíst um niðurstöðu. Svo breyttist skyndilega allt, miklu harðari tónn kom í samtalið og svo var þetta það sem okkur var boðið,“ svarar Sólveig og á við framangreint tilboð.

Hvað stendur þá til núna hjá Eflingu?

„Ja, við erum hér í verkföllum, við erum að starfrækja undanþágunefndina sem hefur verið að störfum síðan snemma í morgun, hér er kominn hópur fólks sem er á leið í verkfallsvörslu, bæði á hótelunum og hjá Olíudreifingu, og það er svona það sem er að gerast núna.“

Sólveig segir undanþágunefnd hafa átt einhverjar beiðnir eftir sem ekki hafði verið svarað þótt undanþágurnar sem sneru að mikilvægum samfélagsinnviðum hafi verið ótímabundnar og afgreiddar í síðustu viku. Eins hafi einhverjar beiðnir bæst við og þeim sinnti nefndin á fundi sínum nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert