Karlmaður hefur verið dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af eru sjö mánuðir skilorðsbundnir, fyrir vörslu og dreifingu á miklu magni af grófu barnaníðsefni. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Efnið fannst á síma mannsins eftir að hann var handtekinn fyrir umferðarlagabrot, en síðar var leitað á dvalarstað hans þar sem einnig fannst mikið magn af grófu barnaníðsefni á síma og iPad. Málið kom upp um mitt ár 2019.
Samtals fundust í fórum mannsins í rafmagnstækjunum þremur og á Telegram reikningi hans yfir 21 þúsund ljósmyndir, teiknimyndir eða hreyfiteiknimyndir sem sýndu barnaníðsefni auk 111 myndskeiða.
Mest var magnið á Telegram reikningi mannsins, en þar fundust tæplega 21 þúsund teiknimyndir og hreyfiteiknimyndir auk um hundrað ljósmynda. Nokkur hundruð ljósmyndir og myndskeið fundust hins vegar á tækjunum sjálfum.
Um var að ræða myndefni sem sýndi allt frá ungabörnum upp í börn á unglingsaldri í kynferðislegum athöfnum.
Maðurinn játaði sök í málinu.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um alvarleg brot var að ræða og að hluti þess efni sem fannst hafi verið af allra grófasta tagi og varðað mjög ung börn. Þó var einnig horft til þess að meirihluti myndanna voru teiknimyndir.
Þótti hæfileg refsing því 10 mánuðir en sjö af þeim eru skilorðsbundnir til þriggja ára. Einnig var lagt hald á tvo farsíma og iPad og manninum var gert að greiða hluta af sakarkostnaði, þar með talið þóknun skipaðs verjanda síns.
Tekið er fram í dómnum að rannsókn málsins hafi dregist úr hófi en vegna alvarleika brotsins var ekki talið við hæfi að skilorðsbinda refsinguna nema að hluta.