Blygðunarsemisbrot gegn 16 ára stúlku

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Þorsteinn

Karlmaður hefur verið dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir lostugt athæfi og að hafa sært blygðunarsemi stúlku undir lögaldri með því að hafa sest klofvega ofan á stúlkuna, haldið henni niðri og nuddað getnaðarlimi sínum við andlit hennar þangað til hann fékk sáðlát. Maðurinn var 19 ára þegar brotið átti sér stað árið 2021 en stúlkan 16 ára. Þrátt fyrir sakfellingu gerir dómurinn nokkrar athugasemdir við rannsókn lögreglu og gögn málsins.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra er maðurinn jafnframt dæmdur til að greiða móður stúlkunnar, fyrir hennar hönd, 1,1 milljón í miskabætur. Maðurinn hafði verið ákærður fyrir nauðgun, en dómurinn taldi athæfi hans hins vegar ekki falla undir þá skilgreiningu heldur blygðunarsemisákvæðið sem felur í sér minni refsingu. Maðurinn neitaði sök fyrir dómi.

Voru ein eftir í herberginu

Rannsókn málsins hófst í september sama ár eftir að stúlkan greindi frá því að hún hefði orðið fyrir ofbeldi á heimili sínu, en stúlkan hafði þá verið lögð á unglingageðdeild eftir sjálfvígstilraun sem hún rakti til þessa atviks.

Sagðist stúlkan hafa boðið tveimur piltum heim til sín þennan dag, en hún hafði komist í samband við þá á samfélagsmiðlum. Sagði hún að fljótlega hefðu atlot hafist milli hennar og piltsins sem hefðu verið með vilja beggja. Hinn pilturinn hafi fljótlega skroppið í burtu og þau þá verið tvö eftir ein. Bar þeim ekki saman um atvik eftir það.

Sagði pilturinn að hún hefði átt frumkvæðið en hann hafi tekið á móti atlotum hennar. Sagðist hann ekkert hafa gert án samþykkis hennar og þá hafi hann hvorki fróað sér né fengið sáðlát. Samkvæmt frásögn piltsins hættu þau atlotunum stuttu síðar.

Stúlkan sagði piltinn hins vegar hafa orðið ágengari í snertingum og tali eftir að vinur hans fór og byrjað að snerta hana og draga úr buxunum. Þá hafi hann reynt að fá hana til að fróa sér, en hún hafi ítrekað sagt honum að hún vildi þetta ekki og ýtt honum frá sér. Að lokum hafi hann sagt henni að leggjast niður sem hún hafi gert og hann hafi fróað sér yfir andlit hennar þrátt fyrir ítrekuð mótmæli hennar.

Sagði systrum sínum strax frá

Stúlkan sagðist eftir þetta hafa farið inn á baðherbergi og sent vininum skilboð um að sækja hinn piltinn sem hann og gerði. Systir stúlkunnar hafi svo komið inn á bað og hitt hana þar hágrandandi við að þrífa sig. Hafi hún sagt systur sinni frá því sem gerðist og þær svo farið til eldri systur sinnar, en ekki sagt móðurinni frá. Móðirin var heimavið þegar atvikið átti sér stað ásamt kærasta sínum, systrunum og bróður þeirra.

Meðal gagna málsins voru myndskeið af samskiptum stúlkunnar og piltsins á Instagram sem stúlkan sagði vera frá því eftir atvikið. Þá voru myndir af samskiptum hennar og hins piltsins. Sagði stúlkan þau gögn meðal annars sýna samskipti hennar og piltsins á Instagram þar sem hann hafi sagt eftir atvikið: „Just know I really sorry ... Sorry ... Didn‘t mean for it to happen like that ... Am human feeling took over i shit happen that normally not me ... Y i really liked you and this shit happen please know am sorry ... am sorry we all human we all make mistakes.“ Pilturinn kannaðist hins vegar ekki við að hafa sent skilaboðin.

Sagði pilturinn pilturinn að meðan vinurinn var í burtu hafi hann og stúlkan verið að að kyssast og snert hvort annað. Hann hafi svo spurt stúlkuna hvort hún vildi sjá lim hans og hún hafi viljað það, en að hún hafi ekki snert hann. Svo hafi vinurinn aftur komið til baka og þeir farið saman. Vinurinn hafi stuttu síðar borið upp á hann stúlkan væri að segja að hann hefði fengið sáðlát á andlit hennar. Hafi hann þá viljað fara til baka og ræða málin, en vinurinn ekki viljað það. Þeir voru á þessum tíma bestu vinir, en ekki lengur. Sagði hann að vinurinn og stúlkan hefðu síðar orðið kærustupar.

Stúlkan lýsti því hins vegar að eftir að vinurinn hafi farið hafi hinn ákærði orðið mun ákafari og meðal annars viljað fara undir peysuna hennar og beðið hana um að fara niður á sig. Þá hafi hann beðið hana að kyssa liminn og hún hafi gert það „því ég vildi bara að þetta væri búið.“ Hann hafi svo reynt að fara ofan í buxurnar hennar en henni tekist að stoppa það. Hann hafi svo suðað í henni um frekari atlot, en á endanum sest klofvega á hana og fróað sér líkt og áður segir. Stúlkan sagðist fyrir dómi ekki hafa kallað á neina aðstoð, m.a. frá móður sinni, því hún hafi skammast sín og einnig frosið þegar hann varð ágengur.

Hefðu átt að taka síma stúlkunnar strax og rannsaka

Í dóminum kemur fram að lögreglan hafi ekki rannsakað síma stúlkunnar, heldur látið gögnin duga sem hún lagði fram. Tekur dómstóllinn fram að við skýrslutöku yfir stúlkunni hjá lögreglu hefði átt að taka síma hennar strax til rannsóknar og tryggja að ekki yrði unnt að eiga við gögnin. Vísað er til þess að auðvelt sé að líkja með nákvæmum hætti eftir samskiptagögnum.

Jafnframt segir að ekkert í skilaboðunum feli í sér viðurkenningu á refsiverðri háttsemi. Þá sé verknaðurinn ekki nefndur í skilaboðunum og telur dómurinn ekki hægt að lesa úr þeim annað en að pilturinn hafi verið full ágengur. Eru skilaboðin því ekki talin hafa sönnunargildi vegna vafa um áreiðanleika þeirra og byggir niðurstaða málsins því á munnlegum framburði.

Dómurinn tekur fram að framburður piltsins hafi verið ótrúverðugur og ekki gefið skýra mynd af ákveðnum atriðum málsins. Þá hafi hann reynt að beina spurningum frá. Hins vegar hafi stúlkan verið einlæg og trúverðug og framburður nákvæmur og ýkjulaus og svör óhikuð, þrátt fyrir að vera sýnilega í miklu tilfinningalegu uppnámi. Þá er framburður systra hennar sagður styðja framburð stúlkunnar.

Ákæruvaldið vildi að maðurinn yrði sakfelldur fyrir nauðgun, en dómurinn sagði að ekki væri hægt að fella atvik málsins undir „önnur kynferðismök“ og því væri hann sakfelldur fyrir lostugt athæfi og að særa blygðunarsemi stúlkunnar. Varðar það fangelsi allt að fjórum árum, en dómurinn taldi níu mánaða skilorðsbundinn dóm hæfilegan auk þess að maðurinn myndi greiða móður stúlkunnar, fyrir hennar hönd, 1,1 milljón í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka