„Eins og ég sagði í minni yfirlýsingu í gær þá hef ég verið lengi á vettvangi sveitarstjórnarmála og átt gott samstarf við fólk og fengið að koma að mörgum skemmtilegum málum. Starfið hefur samt líka tekið í og ég hef fundið það síðastliðna tvo-þrjá mánuði að það hefur tekið meira í hjá mér.“
Þetta segir Jón Björn Hákonarson, fráfarandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við vefmiðilinn Austurfrétt í dag, en eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag hefur Jón Björn sagt starfi sínu lausu.
Jón Björn hafi tekið að finna fyrir því síðustu mánuði að starfið reyndi orðið meira á hann og því ákveðið að láta staðar numið. Kýs hann að sögn Austurfréttar að tjá sig ekki um hvernig á því standi að sumarbústaðir í eigu hans og skyldmenna hans hafi verið óskráðir og fasteignagjöld ekki greidd af þeim.
„Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um fólk í stjórnmálum. Umræðan hefur verið mikil og erfið. Á ákveðnum tímapunkti settist ég niður til að velta fyrir mér hvert ég vildi stefna. Niðurstaðan var að ég vildi horfa eftir öðrum áskorunum eftir smá hvíld,“ segir bæjarstjóri við Austurfrétt.
Í tilkynningu sem Jón Björn sendi frá sér í gær gerði hann starfsumhverfi kjörinna fulltrúa að umtalsefni og orðræðu um þá sem hann telur að oft og tíðum snúist meira um persónur en málefni.
„Ég er ekki síst að hugsa um þetta fyrir það fólk sem er að koma inn í stjórnmálin eða hefur áhuga á því. Við sem staðið höfum lengi í þessu höfum leitt hana [orðræðuna] hjá okkur. Umræðan er ekkert öðruvísi hér í Fjarðabyggð heldur en annars staðar á Íslandi. Það er komið inn á þetta í skýrslu sem Samband íslenskra sveitarfélaga tók nýverið saman um störf kjörinna fulltrúa.
Það er eðlilegt að málefnin séu rædd og störf, ákvarðanir og stefna séu gagnrýnd en þótt maður sé öllu vanur þá er hún orðin persónulegri og það hefur áhrif. Vinnuálag og fleira er trúlega einnig farið að segja til sín en ég finn þetta hefur haft áhrif á mig,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Þá greinir Austurfrétt frá því að á ýmsu hafi gengið í Fjarðabyggð síðustu misseri. Hafi umræða um íþróttahúsið á Eskifirði verið hatrömm, óvenjumargir starfsmenn hafi hætt störfum hjá sveitarfélaginu í apríl og kveðst Austurfrétt hafa heimildir um samstarfsörðugleika á bæjarskrifstofunum sem nái mun lengra aftur í tímann.
Fjarðabyggð hafi svo borist erindi fyrir helgi þar sem bent var á að sumarbústaðir í eigu Jóns Björns og náinna skyldmenna í Fannardal væru óskráðir og ekki greidd af þeim fasteignagjöld.
„Ég hef ekki sótt neins staðar um eða hef augastað á neinu. Ég ætla mér að ljúka störfum mínum hér vel þannig að öll mál séu komin í hendur þeirra sem taka við þeim. Ég á töluvert sumarfrí inni og ætla að hvíla mig. Síðan fer ég að horfa í kringum mig,“ segir Jón Björn að lokum við Austurfrétt.
Í fréttatilkynningu sem Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, sendi frá sér nú síðdegis kemur Stefán Þór, fyrir hönd meirihlutans í Fjarðabyggð, þakklæti á framfæri til Jóns Björns fyrir framlag hans og kveður samstarf við hann hafa verið gott.
„Við hefðum gjarnan kosið að hann hefði haldið áfram í starfi sínu, en styðjum hann engu að síður heilshugar í ákvörðun sinni. Ákvörðun Jóns mun ekki hafa nein áhrif á meirihluta samstarf flokkanna sem stendur sterkt,“ segir þar.
Þegar í gær hafi vinna hafist við að leita að nýjum bæjarstjóra sem lyktað hafi með því að ákveðið hafi verið að ganga til samninga við Jónu Árnýju Þórðardóttur um að taka starfið að sér og verði gengið frá ráðningarsamningi á næstu dögum og hann svo borinn undir bæjarstjórn.
„Jóna Árný hefur víðtæka stjórnunarreynslu og sérþekkingu á sviði rekstrar, fjármála og þróunar en hún hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri Austurbrúar með góðum árangri. Þar á undan var hún m.a. um tíma fjármálastjóri Fjarðabyggðar og býr þar af leiðandi yfir þekkingu á innviðum sveitarfélagsins. Meirihluti Fjarðalista og Framsóknarflokks hlakkar til komandi samstarfs með Jónu Árný og horfir björtum augum til komandi tíma,“ segir að lokum í tilkynningu Stefáns Þórs.