Farið að ganga á birgðir á bensínstöðvum

Ljósmynd/Colourbox

Allar eldsneytisstöðvar N1, Olís og Orkunnar eru enn opnar. Þrátt fyrir það er þó farið að ganga á birgðir stöðvanna.

Þetta kemur fram í samtali við forsvarsmenn félaganna þriggja.

Það ber þó ekki á því að einstaklingar séu að hamstra eldsneyti, líkt og gerðist að einhverju marki þegar verkfall olíudreifingarbílstjóra tók gildi á síðastliðinn miðvikudag. Einstaklingar eru þó í miklum mæli að fylla aftur á bílinn.

Fyrstu stöðvar gætu lokað á morgun

Mismunandi er hvenær forsvarsmenn félaganna telja að fyrstu stöðvunum verði lokað. Framkvæmdastjóri N1, Hinrik Örn Bjarnason, þorir ekki að spá fyrir um það, en framkvæmdastjóri Olís, Frosti Ólafsson, telur að fyrstu stöðvar fari að loka undir helgi. Forstjóri Orkunnar, Auður Daníelsdóttir, telur að fyrstu stöðvar gætu farið að loka í fyrsta lagi á morgun, miðvikudag, þrátt fyrir að birgðastaðan sé enn sæmileg.

Rétt er að benda lesendum á að þeir geta fylgst með stöðunni á eldsneytisstöðvum inni á heimasíðum Olíufélaganna.

Leyfi hafa fengist til að afgreiða undanþáguaðila

Olíufélögin þrjú hafa þó öll fengið leyfi til að halda stöðvum opnum fyrir undanþáguaðila, þegar núverandi birgðir klárast. N1 mun halda eldsneytisafgreiðslu opinni fyrir undanþáguaðila á Ártúnshöfða, Hringbraut og Lækjargötu, en stöðvar Olís í Norðlingaholti, á Langatanga í Mosfellsbæ og á Sæbraut verða opnar undanþáguaðilum. Orkustöðvar á Dalvegi, við Miklubraut (sunnan megin) og í Suðurfelli verða opnar fyrir undanþáguaðila. Þá mun Orkan einnig vera með sértæka opnun fyrir ákveðna hópa undanþáguaðila í Skógarhlíð og Fellsmúla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka