Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og íslenska ríkið hafa sex daga til að skila inn greinargerðum vegna málshöfðunar Ólafar Helgu Adolfsdóttur, ritara Eflingar, sem hefur krafist þess að félagsmenn fái að kjósa um miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.
Málið var þingfest í Félagsdómi í dag og fer fyrirtaka fram á mánudaginn í næstu viku þegar greinargerðum verður skilað.
„Með því að neita henni um þennan rétt þá er verið að ganga gegn hennar réttindum sem er varinn bæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu og það er þá sjálfsagt að láta reyna á þetta hérna,“ segir Halldór Kristján Þorsteinsson, lögmaður Ólafar Helgu.
Að sögn Halldórs er óljóst hvaða gildi miðlunartillagan hefur fyrst að atkvæðagreiðslan var ekki framkvæmd fyrir 31. janúar eins og ríkissáttasemjari hafði lagt til.
„Og þar af leiðandi óvíst hvort að hún er þá bara fallin niður eða hafi ef til vill tekið gildi sem ígildi kjarasamnings eða þá flögri einhvers staðar um loftið sem einhvers konar miðlunartillaga. Það er bara óljóst og ef til vill Félagsdóms þá í þessu máli að skýra myndina.“
Eins og áður kom fram hefur dómari gefið stefndu sex daga frest til að skila inn greinargerðum.
„Það var gerð krafa um það af hálfu stefnanda og í rauninni tveggja af þremur stefndu, að það yrði veittur stuttur frestur til skila á greinargerðum – að málinu yrði flýtt. Ég held að ég þurfi ekki að fara yfir það í löngu máli hvaða aðstæður eru uppi í samfélaginu sem kalla á það að þessu máli sé flýtt og að félagsdómur fái að tjá sig sem fyrst,“ segir Halldór Kristján.
„Það er fyrst og fremst að kröfum Alþýðusambandsins sem að þessi frestur er veittur svo langur.“
Aðspurður kvaðst hann ekki geta lagt mat á hvenær niðurstaða Félagsdóms myndi liggja fyrir í málinu.