Icelandair hefur fellt niður ferðir sem tengjast sölu á pakkaferðum fyrirtækisins undir vörumerkinu Icelandair holidays vegna verkfalla. Ástæðan er þó ekki eldsneytisskortur heldur er um að ræða niðurfellingu vegna verkfalla starfsfólks á hótelum. Ekki hafi tekist að finna viðeigandi gistingu á öðrum stað að því er kemur fram í svari Icelandair við fyrirspurn mbl.is.
Þá segir að verkfall hafi ekki haft áhrif á flugáætlun Icelandair að svo stöddu.
„Verkfallið hefur ekki haft áhrif á flugáætlun Icelandair og við áætlum að svo muni ekki verða í fyrirsjáanlegri framtíð. Í nokkrum tilfellum hefur þurft að aflýsa pakkaferðum Icelandair Holidays, ef gisting á einu af þeim hótelum í Reykjavík sem hafa orðið fyrir áhrifum verkfallsins er innifalin og ekki hefur tekist að tryggja sambærilega gistingu. Umfangið á þessu er ekki mikið í heildarsamhengi hlutanna,“ segir í svari Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair.
Árétting: Icelandair hefur ekki fellt niður flugferðir vegna aflýstra ferða. Hins vegar hefur heildarferðalagi og þar með flugi viðkomandi farþega verið fellt niður. Flugferðirnar verða eftir sem áður farnar. Niðurfelling ferða nær til lítils hluta farþega á vegum flugfélagins.