Urður Egilsdóttir
Mál Ólafar Helgu Adolfsdóttur, ritara Eflingar, verður þingfest í Félagsdómi klukkan 16 í dag. Ólöf hefur stefnt ASÍ, SA og íslenska ríkinu og krefst þess að félagsmenn fái að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
Málið átti að vera þingfest síðdegis í gær en Halldór Kr. Þorsteinsson, lögmaður Ólafar Helgu, segir í samtali við mbl.is að frestunin hafi verið ákveðin málamiðlun.
„ASÍ hafði gert athugasemdir við stefnufrest í málinu og það mátti gefa sér að Félagsdómur hefði þurft að koma saman til að leysa úr þeim athugasemdum með tilheyrandi seinkunum. Þetta leiðir vonandi til tímasparnaðar þegar allt kemur til alls,“ segir Halldór.
Ólöf krefst þess að atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna skuli framkvæmd og henni lokið eigi síðar en á fimmtudag, 23. febrúar. Þá eru fjórar vikur síðan Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari kynnti hana. Að öðrum kosti eigi síðar en einni viku eftir dómsuppkvaðningu.