Miklir vankantar á brunavörnum áfangaheimilisins

Slökkviliðið hafði hafist handa við rannsókn þegar kviknaði í húsnæðinu.
Slökkviliðið hafði hafist handa við rannsókn þegar kviknaði í húsnæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úttekt slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu á brunavörnum á áfangaheimilinu Betra líf, þar sem eldur kviknaði þann 17. febrúar síðastliðinn leiddi í ljós að miklir vankantar voru á brunavörnum hússins. Í úttektinni kemur fram að notkun hússins í þáverandi mynd hafi þótt „sérlega hættuleg.“ Úttektin var framkvæmd níu dögum áður en að það kviknaði í húsnæðinu.

Húsnæðið, sem er að Vatnagörðum 18 til 20 er skráð sem atvinnuhúsnæði en eins og áður sagði var þar rekið áfangaheimili. Í húsnæðinu á fólk með fíknivanda, flóttafólk og fólk sem ekki hefur efni á því að vera á hefðbundnum leigumarkaði að hafa átt samastað. Tuttugu og sjö manns bjuggu í húsnæðinu þegar eldurinn kviknaði.

Í samtali við mbl.is í kjölfar brunans lýstu nágrannar áfangaheimilisins miklum ófriði, stuldi og hræðslu vegna starfseminnar en lögregla hafi margoft verið kölluð til. Nágrannar hafi einnig haft áhyggjur af brunavörnum hússins og komið þeim skilaboðum áleiðis til slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins þann 12. janúar síðastliðinn. Frásögn þessi rímar við yfirlit yfir feril málsins frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Í úttektinni kemur fram að þann 18. janúar síðastliðinn hefur slökkviliðið forvinnu vegna húsnæðisins og stofnar skoðun þess efnis. Fyrir þann tíma höfðu lögreglu borist ábendingar um að búið væri í húsnæðinu ásamt því að fíkniefna væri neytt á staðnum. Snemma í þessum mánuði, þann 6. febrúar, óskar lögreglan eftir því að slökkvilið mæti á staðinn og framkvæmi skoðun. Þetta var byggt á grun um lélegar brunavarnir í húsnæðinu og fjölda útkalla.

Alvarleg brot á lögum um brunavarnir

Tveim dögum síðar mæta lögregla og slökkvilið á staðinn og taka út húsnæðið. Í ljós kemur meðal annars að húsnæðið var ekki í samræmi við teikningar, brunaviðvörunarkerfi væri óvirkt og bilað, hanskar hefðu verið settir yfir reykskynjara og festir með límbandi eða skynjarar ekki til staðar. Þá hafi flóttaleiðir, brunahólfun og neyðarlýsingar ekki verið í lagi.

Slökkvitæki, slöngur og brunakerfi húsnæðisins höfðu ekki verið yfirfarin frá því árið 2019. Þar að auki kemur fram í úttektinni að húsnæðinu hafi verið breytt töluvert frá upphaflegum teikningum. Uppfærslu á teikningum og brunavörnum hafi vantað í takt við breytingarnar.

Í gær var viðvörun um lokun húsnæðisins svo afhent umsjónaraðilum húsnæðisins, þremur dögum eftir brunann. Í áminningunni þar sem vankantar eru taldir upp kemur fram að um alvarlegt brot á lögum um brunavarnir og byggingareglugerð sé að ræða.

„Því tilkynnist að verði málinu ekki lokið á viðunandi hátt eða samið um úrlausn þess við slökkviliðsstjóra áður en húsnæðið verður tekið aftur í notkun verður húseigninni lokað skv. 1. mgr. 31. gr. sbr. 29. gr. 3. tölul. laga um brunavarnir nr. 75/2000,“ segir í viðvöruninni. Samþykki byggingafulltrúa þarf að liggja fyrir áður en húsnæðið er aftur tekið í notkun.

Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnasviðs slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við mbl.is að umsjónaraðilar húsnæðisins hafi ekki haft samband við slökkviliðið til þess að ræða enduropnun áfangaheimilisins svo hún viti til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka