Ríkið sýknað í frávikningarmáli

Talið var að stefnandi hefði beitt sér fyrir frestun birtingar …
Talið var að stefnandi hefði beitt sér fyrir frestun birtingar laga um sjókvíaeldi á laxi. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Íslenska ríkið var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní í fyrra sýknað af bótakröfu fyrrverandi skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með dómi sem nú hefur verið birtur.

Krafðist stefndi tæplega 31 milljónar króna auk dráttarvaxta en til vara tæplega 18 milljóna auk dráttarvaxta og enn fremur greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

Voru málavextir þeir að úttekt á stjórnskipulagi og skipan verkefna í ráðuneytinu, sem ráðgjafarstofan Capacent/Arcur annaðist, skilaði þeim niðurstöðum að skrifstofu stefnanda skyldi skipt upp í tvær skrifstofur og málefni hluta ráðuneytisins skiptust þar með milli þriggja skrifstofa í stað tveggja áður.

Skrifstofustjóri án skrifstofu

Höfðu breytingarnar í för með sér að embætti stefnanda var lagt niður og embætti skrifstofustjóra við þrjár nýjar skrifstofur auglýst. Lagði stefnandi það í framhaldinu til við ráðuneytisstjóra að hann yrði frá gildistöku nýs skipulags skrifstofustjóri án skrifstofu, héldi skipun sinni út skipunartíma sinn og færi eftir það á biðlaun í átta til níu mánuði þar til hann færi á eftirlaun er hann hugðist gera að fylltum 65 ára aldri.

Ráðuneytisstjóra höfðu borist upplýsingar um að stefnandi hefði árið áður beitt sér fyrir því að birtingu laga um sjókvíaeldi á laxi yrði frestað á þeim forsendum að Skipulagsstofnun hefði ekki lokið umfjöllun sinni um tiltekin mál varðandi frummatsskýrslur.

Var stefnandi sendur í ótímabundið leyfi frá störfum á meðan birtingarmálið var gaumgæft og honum síðar formlega tilkynnt að ákveðið hefði verið að leggja embætti hans sem skrifstofustjóra niður vegna skipulagsbreytinga í ráðuneytinu. Stefnandi ætti rétt á biðlaunum í tólf mánuði.

Í kjölfar athugunar birtingarmálsins voru stefnanda birtar niðurstöður þess af hálfu ráðuneytisins þar sem meðal annars sagði: „Beiðni til Stjórnartíðinda um að lög [um sjókvíaeldi á laxi] yrðu ekki birt fyrr en tiltekinn dag varðaði slíka hagsmuni að yður mátti vera ljóst að rétt hefði verið að bera hana undir ráðherra eða ráðuneytisstjóra til ákvörðunar eða hið minnsta upplýsa yfirstjórn um beiðnina, um leið og hún hefði verið gerð.

Frásögnum ber ekki saman

Þá vekja málsatvik ástæðu til að efast um að rétt sé farið með um að hagsmunaaðilum hafi ekki verið kunnugt um þessa beiðni, um tiltekinn birtingardag, sem síðan getur vakið álitaefni um hvort öllum hagsmunaaðilum, eða aðeins hluta þeirra, hafi verið kunnugt um hana. Þá fer ekki saman frásögn yðar af samskiptum við Skipulagsstofnun og frásögn starfsmanna Skipulagsstofnunar um að engin samskipti hafi verið.“

Var stefnandi þá upplýstur um að málinu hefði verið vísað til lögreglu og var hann síðar boðaður til skýrslutöku þar, sem sakborningur. Í frétt mbl.is, sem hlekkjuð er við hér að ofan, segir:

Málið fór fyrst til lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu í októ­ber 2020 áður en það var fram­sent til héraðssak­sókn­ara í júní 2021. Héraðssak­sókn­ari til­kynnti þó mat­vælaráðuneyti um að rann­sókn hafi ekki leitt í ljós að það maður­inn hafi ekki haft hags­muni af því að tefja birt­ingu lag­anna né að hallað hafi á rétt­indi ein­stakra manna eða hins op­in­bera. Þar sem eng­inn ásetn­ing­ur væri til staðar væri eng­in refsi­á­byrgð. Var rann­sókn hætt í fram­hald­inu.

Byggði stefnandi á því að frávikning hans hefði verið ólögmæt og brotið í bága við starfsmannalög, ákvæði stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttar. Ætti hann því rétt á fébótum sem miðuðust við laun hans út skipunartíma hans í embætti en til vara um skemmri tíma.

Grundvöllur ákvörðunar lögmætur

Meðal þess sem fram kemur í málsástæðum stefnanda í fimm liðum er að hin meinta niðurlagning embættis hans hafi verið fyrirsláttur og engin sýnileg þörf hafi verið á því að grípa til svo verulega íþyngjandi aðgerða að víkja honum frá sem embættismanni.

Meðal þess sem fram kemur í rökstuðningi héraðsdómara er að samkvæmt erindisbréfi hafi starfssvið stefnanda verið bundið við ákveðna skrifstofu í ráðuneytinu sem hafi verið lögð niður að undangenginni faglegri vinnu ráðgjafa um endurskipulagningu verkefna. Væri grundvöllur fyrir ákvörðun ráðherra því lögmætur.

Þá hafi málefnaleg sjónarmið að mati dómsins legið að baki þeirri ákvörðun að bjóða stefnanda ekki annað starf, svo sem stjórnvöldum ber eftir atvikum að gera í sambærilegum málum, þótt ekkert yrði fullyrt um hvort stefnandi hefði gerst sekur um brot á lögum með embættisfærslum sínum.

Hafnar héraðsdómur því að lokum að íslenska ríkið hafi með ólögmætum hætti brotið gegn rétti stefnanda þannig að varði skaðabótum og miskabótum. Er stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda en málsaðilar látnir bera hvor sinn hluta af kostnaði við rekstur málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert