Samþykkja frekari verkföll

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagar í stéttarfélaginu Eflingu hafa samþykkt verkfallsboðanir í öryggisgæslu, hjá ræstingafyrirtækjum og á hótelum með afgerandi meirihluta í öllum tilvikum. Á kjörskrá um verkfallsboðun voru samtals 2.034 manns. Um er að ræða ótímabundnar vinnustöðvanir sem allar hefjast klukkan 12 á hádegi þriðjudaginn 28. febrúar.

„Þetta eru góðar niðurstöður og sérstaklega þegar við skoðum þær í ljósi þess að um leið og verkfallskosningin var að hefjast þá vorum við að fara af fullum vilja í samtal við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. Það hlýtur öllum að vera ljóst á þessum tímapunkti að félagsfólk Eflingar er tilbúið að leggja niður störf til þess að ná fram betri kjarasamningum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við Morgunblaðið eftir að niðurstöðurnar voru kynntar í gærkvöldi.

Áframhaldandi verkfall Eflingar hjá olíubílstjórum og hugsanlegt verkbann SA á félagsmenn Eflingar geta haft víðtæk áhrif á afurðastöðvar í landbúnaði sem hafa starfsemi á félagssvæði Eflingar og jafnvel utan þess.

Undanþágunefnd Eflingar hefur þó veitt ákveðnar undanþágur til flutnings á fóðri til búa og sláturgripa frá þeim vegna sjónarmiða um dýravelferð. Einnig myndi verkbannið hafa áhrif á fólk á fjölda vinnustaða innan sjávarútvegs og fiskeldis.

Umfang áhrifanna er þó óþekkt og flókið að greina þar sem aðild að Eflingu er mjög breytileg milli vinnustaða og einstaklinga.

Ef verkbann verður samþykkt og það skellur á fimmtudaginn 2. mars er það umfangsmesta verkbann sem atvinnurekendur hafa gripið til í vinnudeilum hér á landi. Frá árinu 1938 til 2015 má finna 31 tilvik þar sem samþykkt var heimild til verkbannsaðgerða eða verkbann sett á.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert