„Þetta hefur náttúrulega áhrif á okkar rekstur“ segir Hjörtur Freyr Vigfússon í samtali við mbl.is um yfirvofandi verkföll öryggisvarða og hugsanlegt verkbann. Hjörtur Freyr er framkvæmdarstjóri stafrænnar þróunnar hjá Securitas.
Verkfall öryggisvarða hefst um kl. 12:00 næsta þriðjudag, þann 28. febrúar, ásamt verkföllum hótelstarfsfólks og starfsfólks ræstingarfyrirtækja.
„Starfsemin er viðkvæm fyrir svona vinnudeilum.“ segir Hjörtur en Securitas er með um 280 manna gæslusvið og alls kyns öryggisþjónustur. Til dæmis má taka eftirlit með öryggiskerfum, útköll og yfirsetu með sjúklingum.
Segir hann að Efling og Securitas hafi sérgerða samninga sín á milli með ákvæðum um efni á borð við verkföll og verkbönn. Í samningnum séu „undanþágur sem hafa það markmið að tryggja öryggi almennings.“
„Í ákvæðinu segir til dæmis að aldrei skuli falla niður starfsemi í stjórnstöð fyrirtækisins“ segir Hjörtur en stjórnstöðin sér um eftirlit með öryggiskerfi á yfir 12 þúsund heimilum.
„Þetta fer í smá hring,“ segir Hjörtur, aðspurður um hvort þau ætli sér að sækja um undanþágu, „Það var náttúrulega okkar fólk sem kaus að fara í verkfall.“
Bætir hann samt við að þau munu sækja um undanþágur fyrir þær þjónustur sem eru mest nauðsynlegar.