Starfsfólk hvatt til að samnýta bíla

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir erfitt að skipuleggja sig með tilliti til verkfalla. Drjúgar birgðir séu til af eldsneyti fyrir flugvélar en hins vegar sé óumflýjanlegt að eldsneytisskortur muni á endanum hafa áhrif á starfsfólk, farþega og þar með starfsemi félagsins í heild. Starfsfólk er hvatt til að samnýta bíla sína.

Birgir segir mikinn vanda að skipuleggja starfsemina með tilliti til eldsneytisskorts. Erfitt sé að meta hvenær hann fari að bíta.

„Á endanum snýst þetta um það hvort fólk komist á milli staða á bílunum sínum,“ segir Birgir. Hann segir að lagt hafi verið til að samnýta bíla til að fresta áhrifum verkfallsins hvað starfsfólk varðar. 

„Við erum búin að benda fólki á að gera það en annars er ekki mannsbarn á Íslandi sem ekki er meðvitað um þetta,“ segir Birgir.

Forðast í lengstu lög að fella ferðir niður 

Hann segir engar áætlanir liggi fyrir um það hvenær fella þurfi niður flugferðir vegna eldsneytisskorts innanlands. Hann gerir þó ráð fyrir því að farþegar verði látnir vita með tveggja til þriggja daga fyrirvara ef ekki verður búið að leysa úr verkföllum fyrir þann tíma.

„Við reynum náttúrlega að forðast það í lengstu lög að fella niður flug enda erum við bótaskyld eða þurfum að endurgreiða fólki ef grípa þarf til þess,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka