„Þetta er bara flókið“

Katrín Jakobsdóttir ræðir við fjölmiðla í Ráðherrabústaðnum.
Katrín Jakobsdóttir ræðir við fjölmiðla í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við fylgjumst auðvitað grannt með stöðunni en boltinn er hjá samningsaðilum og það er þeirra skylda að ná samningum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum nú um hádegisbil.

Kvað ráðherra ríkisstjórnina þegar hafa gripið til aðgerða á vettvangi kjarasamninga og -mála og nefndi þar meðal annars húsnæðisstuðning, hvort tveggja við eigendur og leigjendur húsnæðis, og eflingu barnabótakerfisins.

Segir Katrín hafa verið farið yfir áhrif yfirstandandi og yfirvofandi vinnustöðvana á fundi ríkisstjórnarinnar og þar lagt fram yfirlit yfir þær undanþágur sem veittar hefðu verið á þeim vettvangi sem verkföll næðu til auk þess að ræða möguleg áhrif verkfallsins og hugsanlegs verkbanns komi til þess.

Mjög dapurlegt að samningar hafi ekki náðst

Í samtali við mbl.is var Katrín spurð hvort ríkisstjórnin yrði ekki að grípa inn í ef deilan drægist á langinn umfram það sem þegar er orðið.

„Við erum að fylgjast með stöðunni, við gerum okkur fulla grein fyrir ábyrgð okkar sem ríkisstjórnar í landinu en ítrekum það – hér eftir sem hingað til – að enn þá er boltinn hjá samningsaðilum, þeirra hlutverk er að ná saman. Það er mjög dapurlegt að ekki hafi náðst saman enn þá, en það er enn tími til stefnu,“ svaraði Katrín.

Aðspurð segir hún ekki hafa komið til tals að ríkisstjórnin gripi inn í kjaradeilurnar með nokkrum hætti en „ef áhrifin verða mikil á samfélagið þurfum við auðvitað að taka alla möguleika til skoðunar“, bætti hún við.

Ekki hafa verið greidd atkvæði um miðlunartillöguna sem Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði fram í janúar. Verður ekki að leiða hana til lykta áður en lengra er haldið?

„Eins og ég hef sagt áður leiðir þetta í ljós og það er auðvitað þannig að dómur Landsréttar felur í sér að heimilt sé að leggja fram miðlunartillögu en hins vegar séu engin úrræði innan löggjafarinnar til að láta atkvæðagreiðslu fara fram um þá miðlunartillögu. Það hlýtur að vekja spurningar um hvort við þurfum ekki að fara yfir vinnulöggöfina,“ sagði ráðherra.

„Treysti mér ekki til að spá um hvernig fer“

Katrín kvaðst ímynda sér að þetta atriði hefðu aðilar vinnumarkaðarins ekki endilega séð fyrir og ljóst væri að fara þyrfti yfir vinnulöggjöfina með þetta atriði í huga. Þá væri dómsmál nú í rekstri fyrir Félagsdómi og ekki vitað hve langan tíma tæki að fá niðurstöðu úr því. Eðli málsins samkvæmt fylgdist ríkisstjórnin náið með því máli, í síðustu viku hefði dómur fallið með þeim úrslitum að ríkissáttasemjari hefði sagt sig frá deilunni.

„Við gripum strax inn í það og settur var nýr sáttasemjari sem hefur setið með aðilum alla síðustu viku og fram á sunnudag. Síðan kemur þetta dómsmál upp og ég treysti mér ekki til að spá um hvernig það fer, en við skulum átta okkur á því að það gæti mögulega haft þær afleiðingar að Félagsdómur kæmist að þeirri niðurstöðu að það ætti að greiða atkvæði um miðlunartillöguna. [...] Þannig að þetta er bara svona, þetta er bara flókið,“ sagði ráðherra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert