Magnús M. Norðdahl, lögmaður Alþýðusambands Íslands, segir að sá frestur sem ASÍ óskaði eftir til að skila greinargerð vegna málshöfðunar Ólafar Helgu Adolfsdóttur, ritara Eflingar, sé í samræmi við ákvæði einkamálalaga sem mæli fyrir um réttinn á hæfilegum fresti.
„Við lögðum það í mat dómsforseta hver sá hæfilegi frestur er og hann metur það að sá frestur sé nokkrir dagar og við fengum þann frest.“
Magnús telur ekki að ferli miðlunartillögu skipaðs ríkissáttasemjara bendi til brotalama í vinnulöggjöfinni, eins og meðal annars stjórnmálamenn hafa tjáð sig um.
„Ég held að þeir séu í því efni svolítið úti í mýri eins og embætti ríkissáttasemjara. Vinnulöggjöfin hefur þjónað okkur afskaplega vel um áratuga skeið.
Hún er afrakstur af mjög langri og erfiðri deilu og deilum á Íslandi sem endaði með sátt um vinnulöggjöfina sem tekin var upp árið 1996.“
Hann segir verkföll og deilur á Íslandi tiltölulega hóflegar og hafi verið meira á opinberum markaði en á almennum vinnumarkaði og að önnur lög gildi um opinbera starfsmenn.
Magnúsi sýnist að stundum sé verið að blása út þá stöðu að vinnulöggjöfin sé ómöguleg og þá sé vísað til dóms Landsréttar í því efni.
„Landsréttur var einungis að fjalla um að ákvæði vanti inn í aðfararlögin til að styðja vinnulöggjöfina.
Ég held að það sé verið að búa til einhverjar aðstæður fyrir þessa umræðu eða til að réttlæta inngrip ríkisins í þessa deilu með einhvers konar lagasetningu en þau skilyrði eru ekki til staðar.
Alþingi hefur engar heimildir til að grípa inn í löglegar vinnustöðvanir nema almenningi sé búin einhver hætta af verkföllum.“
Lögmaðurinn segir að þó hótelum og veitingahúsum sé lokað og það sé auðvitað sárt og mikið efnahagslegt tap dugi efnahagsleg rök ekki Alþingi til lagasetningar á verkföll.
Aðspurður hvort hann telji að settur ríkissáttasemjari muni leggja fram aðra miðlunartillögu segir hann að ef deilur séu komnar algjörlega í strand og það sé búið að reyna á þau úrræði sem aðilar sem standa að deilunni hafi, þá séu í lögum heimildir til miðlunar.
„Settur ríkissáttasemjari talar nú alveg eins og miðill í því efni. Ég er þeirrar skoðunar og Alþýðusambandið er þeirrar skoðunar að það þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði áður en þeirri heimild er beitt.
Við teljum að þau skilyrði hafi ekki verið til staðar þegar síðasta tillaga var lögð fram meðan ekki einu sinni var búið að greiða atkvæði um boðun vinnustöðvunar.
Þar var gripið inn í allt of snemma. Það þarf að hafa meira samráð við aðila áður en það er gert.“
Magnús segist treysta því að settur ríkissáttasemjari muni gera allt sem hann geti til þess að leiða aðila saman að niðurstöðu í þessu máli eins og hann eigi að gera.
Hann segir að ef ný miðlunartillaga verði lögð fram verði þeirri stöðu mætt sem þá komi upp. Magnús segir allt of snemmt að segja til um niðurstöðu málsins.
„Ég held að við höfum gert grein fyrir því áðan meðal annars að hluti að þessu varðar réttarfar og heimildir Félagsdóms og hugsanlega frávísun málsins.“