Birgðastaða í verslunum er góð og ber ekki á því að fólk sé farið að hamstra í verslunum. Þetta segja forsvarsmenn Bónuss og Krónunnar í samtali við mbl.is.
Enn sem komið er eiga birgjar nóg af eldsneyti, svo ekki er það farið að hafa áhrif á vörudreifingu til verslana. Verkfallið er því ekki farið að bitna á vöruúrvali í verslunum.
Framkvæmdastjóri Krónunnar, Guðrún Aðalsteinsdóttir, segir að ef birgjar geti ekki dreift vörum til verslana sjáist það fljótt í vöruúrvali verslananna. Taka muni tvo til þrjá daga að fara að sjá á framboði ferskvöru, en lengri tíma þegar kemur að öðrum vörum.
Ekkert bendi þó til þess að slíkt komi upp á næstunni.
Forsvarsmenn verslana segjast vera í góðu samtali við birgja og tilbúnir að bregðast við hnökrum í framboðskeðjunni.