Birgir og Jakob Frímann í Írak

Birgir Þórarinsson og Jakob Frímann Magnússon heimsóttu flóttamannabúðirnar í Chamisku …
Birgir Þórarinsson og Jakob Frímann Magnússon heimsóttu flóttamannabúðirnar í Chamisku í Norður-Íran. Ljósmynd/Aðsend

Alþingismennirnir Birgir Þórarinsson og Jakob Frímann Magnússon eru um þessar mundir á ferðalagi um Írak og hafa heimsótt flóttamannabúðir víðs vegar um landið. Þeir hafa þá fundað með þjóðarleiðtogum landsins, þar á meðal forsetanum Abdul Latif Rashid og ráðherrum landsins þar sem meðal annars var rædd staða íraskra flóttamanna á Íslandi.

Birgir Þórarinsson segir í samtali við mbl.is að flóttafólk búi við hrörlegar aðstæður í Sinjar í Norður-Írak.

„Í gær heimsóttum við flóttamannabúðir fólksins frá bænum Sinjar í Norður - Írak sem ISIS hryðjuverkasamtökin jöfnuðu við jörðu árið 2014 , drápu karlmennina og hnepptu konur og börn í ánauð. Í þessum hrörlegu tjaldbúðum búa liðlega 21.500 manns við afar kröpp kjör og takmarkaða möguleika til hreinlætis og eðlilegs lífs. Þarna eru konur og börn í miklum meirihluta.“ 

Birgir og Jakob heimsóttu flóttamannabúðir í Chamisku í Norður-Írak.
Birgir og Jakob heimsóttu flóttamannabúðir í Chamisku í Norður-Írak. Ljósmynd/Aðsend
Birgir Þórarinsson ásamt landbúnaðarráðherra Íraks, Muhammad Karim Jasim Salih.
Birgir Þórarinsson ásamt landbúnaðarráðherra Íraks, Muhammad Karim Jasim Salih. Ljósmynd/Aðsend

Átakanlegt að heimsækja Batnaya

Sömuleiðis hafi verið átakanlegt að heimsækja þorpið Batnaya, sem hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafi gjöreyðilagt árið 2015 en þingmennirnir voru fyrstir allra þingmanna til þess að heimsækja Batnaya.

„Þar bjuggu liðlega 1.100 fjölskyldur árið 2014 en í dag eru þar einungis eftir um 200 fjölskyldur, einkum fullorðið fólk, sem harmar mjög áhugaleysi írakskra stjórnvalda við að endurbyggja þorpið. Það kom okkur nokkuð á óvart þegar okkur var tjáð að við værum fyrstir allra þingmanna til að heimsækja Batnaya,“ segir Birgir.

Hér ætti sannarlega að vera nóg fyrir alla

 „Þrátt fyrir frelsun bæjarins frá ISIS og að níu ár séu liðin frá því að það lið var hrakið á brott var mikill viðbúnaður á staðnum og vopnaðir verðir fylgdu okkur hvert fótmál,“ segir Jakob Frímann og bætir við: 

„Viðbúnaður var svosum mikill og æði stórkarlalegur í Bagdad sömuleiðis. En miðað við samhljóma ásetning bæði hinna kjörnu fulltrúa, ráðherra og erkibiskupa  bindur maður vonir við að geta heimsótt hina sögufrægu Bagdad án þess að menn séu hér gráir fyrir járnum. Þó fátækt sé víða áberandi í landinu eru auðævin mikil þegar t.a.m. er horft til þess að á síðasta ári námu olíuviðskipti Íraka heilum 115 milljörðum Bandaríkjadala. Hér ætti sannarlega að vera til nóg fyrir alla“. 

Ljósmynd/Aðsend
Birgir ásamt Ivan Fayiq, ráðherra innflytjendamála í Írak.
Birgir ásamt Ivan Fayiq, ráðherra innflytjendamála í Írak. Ljósmynd/Aðsend

„Írak skapað sér ánægjulega sérstöðu“

Ferðin er skipulögð og kostuð af alþjóðlegu mannúðar- og mannréttindasamtökunum One Free World Nation International í samstarfi við stjórnvöld í Írak, en stofnandi þessara samtaka, Majed El Shafie, hefur á undanförnum árum sinnt málefnum flóttamanna og fórnarlömbum hryðjuverka í fjölmörgum löndum og hefur m.a. ferðast með Birgi til Afganistan, Úkraínu og Nagorno Karabakh með hjálpargögn og lyf.

Shafie bauð tveimur íslenskum alþingismönnum að taka sæti í sjö manna sendinefnd til Íraks. Auk Birgis var Jakobi Frímanni Magnússyni boðið að taka sæti í nefndinni en hann, líkt og Birgir, á sæti í utanríkismálanefnd auk þess að vera í framtíðarnefnd og þróunarsamvinnunefnd. Birgir situr einnig í flóttamannanefnd Evrópuráðsins.  

„Það vakti athygli okkar hversu samhljóma ráðamenn hér og erkiklerkar allir voru um að standa hér eftir vörð um umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum og þá ekki síst gagnvart mismunandi trúarbrotum í landinu. Með þessu mætti segja að Írak hafi skapað sér ánægjulega sérstöðu meðal Arabaþjóða“ segir Birgir að lokum. 

Um 1,2 milljónir eru á vergangi innan Íraks og um 41 milljónir þurfa á mannúðaraðstoð að halda, samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þá hallar undan fæti á sviði mannréttinda í Írak, þar sem stjórnvöldum hefur mistekist að binda endi á handahófskenndar handtökur, morð á mótmælendum, blaðamönnum og stjórnmálagagnrýnendum samkvæmt skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert