Dísilbirgðir farnar að klárast

Biðraðir hafa verið bensínstöðvar undanfarna daga vegna verkfalla Eflingar.
Biðraðir hafa verið bensínstöðvar undanfarna daga vegna verkfalla Eflingar. Mbl.is/Björn Jóhann

Dísilbirgðir á stöð Orkunnar við Dalveg og stöð N1 við Lækjargötu hafa þegar klárast, en báðar stöðvar hafa verið virkjaðar sem neyðarstöðvar fyrir undanþáguaðila. Enn eru þó til bensínbirgðir á báðum stöðvum. Olís hefur ekki þurft að loka dælum hjá sér.

Þetta kemur fram í svörum forsvarsmanna olíufélaganna.

Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, býst við að þetta verði eina stöðin sem muni loka í dag, en segir að fleiri gætu lokað á allra næstu dögum, þar sem að farið er að ganga á birgðir.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís, telur ekki ólíklegt að hluti stöðva félagsins fari að tæmast á morgun og opnum stöðvunum muni fækka fyrir og um helgina.

Vífill Ingimarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Orkunnar, segir að eitthvað sé farið að ganga á birgðir, en staðan sé þó almennt nokkuð góð. Auk dísildæla á stöð Orkunnar á Dalvegi, hefur stöðvum félagsins í Skógarhlíð og Fellsmúla þegar verið lokað fyrir almenning. Þær eru opnar fyrir ákveðna hópa undanþáguaðila.

Ólíklegt að allar stöðvar tæmist

Vífill segir jafnframt að ólíklegt sé að allar stöðvar Orkunnar lokist fyrir almenning, þar sem að tveir verktakar sem unnið hafa fyrir olíudreifingu Skeljungs í mörg ár muni áfram geta dreift olíu til eldsneytisstöðva á höfuðborgarsvæðinu.

Þeim verður þó aðeins heimilt að vinna á þeim tímum sem þeir voru að vinna á áður en verkfallið skall á og því er ljóst að þeir munu ekki geta fyllt á allar stöðvar félagsins á höfuðborgarsvæðinu. Útfærsla á þessu var unnin í samstarfi við Eflingu og lögfræðinga þeirra.

Hið sama er uppi á teningnum hjá Olíudreifingu, sem dreifir eldsneyti til stöðva N1 og Olís, en þar eru sömuleiðis einhverjir verktakar í vinnu. Þó er útfærsla á dreifingu þeirra ekki ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert