Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í tveggja ára fangelsi fyrir að flytja inn rúm tvö kíló af kókaíni til landsins á Þorláksmessu í fyrra.
Lázló Balla er ungverskur og úkraínskur ríkisborgari og játaði hann afdráttarlaust sök samkvæmt ákæru og samþykkti upptökukröfu ákæruvaldsins.
Balla flaug til Keflavíkur frá Varsjá í Póllandi með fíkniefnin falin í farangri sínum. Efnin voru með 83% styrkleika og innihéldu kókaín og prókaín.
Í dóminum kemur fram að Balla var ekki eigandi fíkniefnanna og hafði ekki tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til landsins með öðrum hætti en að samþykkja að flytja þau.
Balla sagðist einungis hafa átt að fá fargjald til Íslands og uppihald í nokkra daga fyrir flutninginn.
Þá segir að Balla hafi verið samvinnuþýður við rannsókn málsins og var litið til þess við ákvörðun refsingar.
Balla er jafnframt gert að greiða málsvarðarlaun skipaðs verjanda og sakarkostnað, samtals um 1,3 milljónir króna.