„Allir voru rosalega kátir að sjá að einhver var tilbúinn að taka það á kassann að vera í búning á öskudaginn," segir Aríel Pétursson formaður sjómannadagsráðs og köngulóarmaður í hjáverkum sem mætti á fund skipulagshóps sjómannadagsins klæddur sem ofurhetjan lipra.
Á fundinum skipulagsráðs eru fulltrúar Brims og Faxaflóahafna. Rætt var um komandi sjómannadag og er um nokkur formlegheit að ræða að sögn hins 35 ára gamla Aríels. Hann er jafnframt stjórnarformaður Hrafnistu en sjómannadagsráð er móðurfélag Hrafnistuheimilanna þar sem hann varði hluta úr deginum. Hann segir að oft hafi verið skorað á hann að mæta í búning á þar til gerðum dögum. „Á Hrafnistu er gjarnan rosaleg stemning á bleika deginum, hrekkjavöku og á öskudag. Ég hef oft fengið bágt fyrir að mæta ekki í búning eða bleikri skyrtu. Í morgun vorum við hjónin að græja krakkana í búninga og sá yngsti fór í Spider man búning. Krafðist hann þess að pabbi myndi gera hið sama,“ segir Aríel.
Líkt og nútímapöbbum sæmir hlýddi Aríel kalli sonarins og úr varð að hann fór út í daginn sem köngulóarmaðurinn í fyrsta skipti. „Ég eignaðist þennan búning þegar sonur minn var tveggja ára. Hann er svokallað covid barn og enginn gat komið í afmælið hans á sínum tíma en ég mætti sem Spiderman í staðinn. Hann er að vísu löngu búinn að sjá í gegnum það í dag að þetta er pabbi en ekki Spiderman,“ segir Aríel.
Hann segist hafa klæðst búningnum í allan dag og fannst það lítið mál. „Sérstaklega inni á Hrafnistu þar sem margir voru í búningum,“ segir Aríel. Spurður segir hann að upplifunina það góða að hann sér ekkert því fyrirstöðu að endurtaka leikinn.
„Ég held að þetta muni alveg taka af mér búningafeimnina, hvort sem það á við um öskudag, Hrekkjavöku eða nokkuð annað,“ segir hinn glaðbeitti Aríel að lokum.