Mætti með heimagert skotvopn í skólann

Atvikið átti sér stað í Lundarskóla á Akureyri.
Atvikið átti sér stað í Lundarskóla á Akureyri. Ljósmynd/Lundarskóli

Nemandi á unglingastigi í Lundarskóla á Akureyri mætti með heimatilbúið skotvopn í skólann á föstudag og sýndi af sér ógnandi hegðun gagnvart kennara.

Vefmiðillinn Kaffid.is greindi fyrst frá, en vísað er í tölvupóst frá Maríönnu Ragnarsdóttur, skólastjóra Lundarskóla, sem sendur var til foreldra og forráðamanna nemenda við skólann. Lögregla var kölluð til vegna málsins.

Lögreglan á Norðurlandi eystra staðfestir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi verið kölluð til vegna nemanda með vopn, en vill ekki gefa frekari upplýsingar um vopnið eða málsatvik.

„Ég get staðfest að á föstudag fékk lögregla tilkynningu um mál í skóla hérna á Akureyri sem varðaði nemanda þar með einhvers konar vopn. Það er til skoðunar hjá okkur og barnaverndaryfirvöldum,“ segir Kári Erlingsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is.

Kári segist ekki geta farið nánar út í það um hvernig vopn var að ræða og staðfestir ekki að nemandinn hafi verið með heimagert skotvopn.

Í bréfinu frá skólastjóranum kemur fram að að alla jafna sé um að ræða ljúfan einstakling en að starfsfólk hafi haft áhyggjur af hegðun hans og því hafi lögregla verið kölluð til.

Jafnframt kemur fram að nemandinn sé ekki í skólanum að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert