Tómas Arnar Þorláksson
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segist reikna með því að stefna Eflingu fyrir Félagsdóm á morgun vegna ólögmætrar verkfallsboðunar Eflingar. Þetta staðfestir Halldór í samtali við mbl.is.
„Ef þau halda til streitu þeirri túlkun sem birst hefur í fjölmiðlum í dag munum við stefna þeim fyrir Félagsdóm,“ segir Halldór en eins og áður hefur verið greint frá eru verkfallsboðanir Eflingar sem samþykktar voru síðdegis á mánudag ólögmætar þar sem Efling hefur ekki skilað inn tilgreindum gögnum til ríkissáttasemjara og Samtaka atvinnulífsins (SA).
Eflingu er skylt að skila inn gögnum um boðun verkfalla viku áður en verkföll eigi að hefjast samkvæmt lögum. Tilgreind verkföll Eflingar eiga að hefjast klukkan 12 á hádegi þriðjudaginn og því bar Eflingu að tilkynna verkfallið í gær.
„Ef þau afhenda ekki verkfallsboðunina þá stefnum við þeim ekki. Þau þurfa að senda okkur boðun og við þurfum að kvitta fyrir móttöku þess og ef þau gera það ekki er verkfallið ólögmætt,“ segir Halldór spurður hvað geti komið í veg fyrir að SA stefni Eflingu á morgun.
Eins og greint hefur verið frá samþykktu aðildarfélög SA verkbann með afgerandi hætti í dag en það mun hefjast að öllu óbreyttu 2. mars.