Ríkissáttasemjari mun ekki kæra til Hæstaréttar

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Efling­ar og Sam­taka at­vinnulífsins, …
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Efling­ar og Sam­taka at­vinnulífsins, mun ekki leitast eftir úrskurði Hæstaréttar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissáttasemjari mun ekki kæra úrskurð Landsréttar sem synjaði embættinu um aðgang að kjörgögnum Eflingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ástráði Haraldssyni ríkissáttasemjara, sem send var fyrir skömmu. 

„Frá því að settur ríkissáttasemjari í deilu SA og Eflingar tók við málinu 15. febrúar hefur verið til skoðunar hvort unnt sé, eða rétt, að óska eftir kæruleyfi í þeim tilgangi að freista þess að fá Hæstarétt til að fjalla um úrskurð Landsréttar í aðfararmáli Eflingar – stéttarfélags gegn ríkissáttasemjara frá 13. febrúar,“ segir í tilkynningu.

Settur ríkissáttasemjari óskaði eftir því við lögmann þann sem farið hafði með málið fyrir embættið, Andra Árnason hrl., að hann tæki þetta til skoðunar.

„Andri hefur nú skilað minnisblaði um málið til embættisins og er það hér meðfylgjandi. Að vandlega íhuguðu máli og í ljósi þess sem kemur fram í nefndu minnisblaði er það niðurstaða setts ríkissáttasemjara að hann mun ekki óska eftir kæruleyfi Hæstaréttar til að fá að kæra nefndan úrskurð til réttarins,“ segir í tilkynningu.

Stjórnvöld víki ekki frá fyrri ráðstöfunum 

Eins og fram hefur komið gerði Aðalsteinn Leifsson sem áður fór með stöðu ríkissáttasemjara í kjaradeilunni og Sólveig Anna Jónsdóttir fyrir hönd Eflingar samkomulag um að dómsmálið færi ekki lengra en í Landsrétt.

Hins vegar hefur þeim sjónarmiðum verið velt upp að settur ríkissáttasemjari Ástráður Haraldsson sé ekki bundinn af samkomulaginu á þeim forsendum að embættið geti ekki vísað frá sér rétti sínum um að skjóta málum fyrir hæstarétt.

Greint var fyrst frá því í Morgunblaðinu í síðustu viku.

„Borgarar eiga almennt að geta treyst því, á grundvelli sjónarmiða um réttmætar væntingar, að stjórnvöld víki ekki frá fyrri ráðstöfunum sínum nema sérstaklega standi á. Myndi það mögulega vera varasamt fordæmi af hálfu opinberra aðila,“ segir í álitinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert