Segja sig ekki bundin af verkbanni SA

Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT.
Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT. Ljósmynd/Aðsend

Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) hafa tilkynnt Samtökum atvinnulífsins að fyrirtæki innan SVEIT telji sig óbundin af ákvörðun SA um að leggja verkbann á félagsmenn Eflingar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SVEIT sem er undirrituð af Aðalgeiri Ásvaldssyni, framkvæmdastjóra SVEIT. Eins og áður hefur verið greint frá samþykktu aðildarfélög SA með afgerandi hætti verkbann á Eflingu en það mun að öllu óbreyttu taka gildi 2. mars.

Geta ekki stutt aðgerðirnar

Ljóst er að ósætti ríki innan SVEIT gagnvart vinnubrögðum SA en félögum í SVEIT telja SA ekki taka nægilegt tillit til fyrirtækja í veitingarekstri og vilja komast að samningaborðinu. Aðalgeir sagði í samtali við mbl.is um helgina að nýir kjarasamningar gætu orðið banabiti fyrir ýmsa í veitingageiranum.

„Samtökin hafa ekki fengið sæti við samningsborðið né tekið þátt í kosningu SA um verkbann þrátt fyrir að vera stærstu hagsmunasamtök fyrirtækja á veitingamarkaði. Þar af leiðandi geta samtökin ekki stutt aðgerðir sem hafa það að markmiði að skila kjarasamningi sem við höfum ekki fengið til yfirferðar né athugasemda,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt er bent á í tilkynningunni að félagsmenn SVEIT telja 150 rekstraraðila á veitingamarkaði sem reka 240 veitingastaði á starfssvæði Eflingar. Samkvæmt SVEIT er það talið svara til 55 prósent allra starfa á þeim markaði.

Vilja að Efling semji við SVEIT

SVEIT beinir því til félagsmanna Eflingar að ef þeir vilji semja um kjör starfsfólks innan SVEIT þá sé eina leiðin til þess að ganga til viðræðna við SVEIT.

„Eins og kemur skýrt fram í kröfu SVEIT til kjaraviðræðna þá hefur SA ekki umboð til gerðar kjarasamnings fyrir hönd fyrirtækja SVEIT. Þótt stéttarfélög vilji gera kjarasamning við SA þá getur slíkur samningur ekki skapað félögum Eflingar réttindi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert