„Lýðræðið er öflugasta verkfærið sem við eigum og það er mjög mikilvægt í samtökum eins og Samtökum atvinnulífsins að við treystum okkar umbjóðendum til að taka erfiðustu ákvarðanirnar,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Atkvæðagreiðslu um verkbann SA á Eflingu lauk klukkan fjögur í dag en niðurstöðurnar voru kynntar núna klukkan sex í kvöld. Aðildarfyrirtæki SA samþykktu með afgerandi meirihluta verkbann á félagsmenn Eflingar. 94,73 prósent þeirra sem greiddu atkvæði kusu með verkbanni en einungis 3,32 prósent voru ekki hlynntir því.
„Það er alveg ljóst að það er mikil eindrægni sem ríkir á meðal atvinnurekenda í þessari kjaradeilu gagnvart Eflingu og það er ljóst að atvinnurekendur sitja allir við sama borð í þessari kjaradeilu en því er þessi stuðningur mjög sterk niðurstaða.
Á sama tíma ítreka ég það að þetta eru þungbær skref að stíga og hér er um varnaraðgerð að ræða. Í raun má segja að við séum í nauðvörn gagnvart boðuðum verkföllum Eflingar sem þegar hafa komið til framkvæmda og ljóst að þau muni valda gríðarlegu samfélagslegu tjóni á næstu dögum og mögulega vikum.
Á einhverjum tímapunkti verða ábyrgir aðilar að stíga niður fæti og segja hingað og ekki lengra, jafnvel þó okkur þyki þessi spor afskaplega þung.“
Halldór kveðst þakklátur fyrir það traust sem umbjóðendur SA sýna samninganefnd og forystu samtakanna þrátt fyrir að honum þyki erfitt að boða verkbann á félagsfólk Eflingar.
Hann segir að ef forysta í félagi, hvort sem um er að ræða samtök atvinnurekenda eða verkalýðsfélög, kýs ekki að leyfa félagsmönum að tjá hug sinn sé sú forysta í vanda.
„Það er alveg ljóst að þegar Efling stéttarfélag beitir úthugsuðum skæruverkföllum sem eru hugsuð með það í huga að valda hámarks tjóni í samfélaginu með lágmarks tilkostnaði fyrir Eflingu þá er ljóst að Samtök atvinnulífsins geta ekki setið hjá og látið slíkt ganga yfir samfélagið.
Halldór segir þróunina hafa verið þá að Efling sé sífellt að skerpa á verkfallsvopninu og hvernig því er beitt og að það verði að hafa í huga að vinnulöggjöfin bjóði upp á algjöra samhverfu milli annars vegar verkfalla og hins vegar verkbanna. Hann segir það enda ekki geta verið þannig að aðeins annar aðilinn geti gengið fram með þessum hætti.
„Atvinnurekendur eiga og verða að fá að nýta þennan neyðarrétt sinn og bera hönd fyrir höfuð sér í deilu sem þessari,“ segir Halldór.
Halldór segir að það beri að skoða verkbannsaðgerð SA Í ljósi þess að það liggi fyrir gild miðlunartillaga frá ríkissáttasemjara og að Efling hafi skorað vinnulöggjöfina og stofnanir hennar á hólm síendurtekið, nú síðast með því að neita að leyfa félagsmönum sínum að greiða atkvæði um miðlunartillöguna, sem héraðsdómur hefur úrskurðað gilda í efni og formi.
Aðspurður hversu lengi samfélagið geti lifað allsherjar verkbann á félagsfólk Eflingar segir Halldór erfitt að segja til um það og það sé erfitt að spá fyrir um framtíðina en hann segir þó ljóst að þessi vinnudeila muni valda samfélagslegu tjóni og mikilli röskun.
„Það eru í raun bara tveir valkostir. Annars vegar að láta verkföll Eflingar naga sig hægt og bítandi eða mæta þeim af festu með það fyrir huga að hvorugur aðili geti skorast undir þeirri ábyrgð sinni að ganga til kjaraviðræðna og ljúka þessu með kjarasamningi.“
Undanþágur vegna mikilvægrar starfsemi í þágu samfélagsins verða veittar í verkbanni rétt eins og ef um verkfall væri að ræða.
„Af þeirri ábyrgð og festu sem við sýnum munum við gæta þess sérstaklega að lágmarka áhrif á viðkvæma hópa auk þess sem veittar verða undanþágur til handa öryggi, heilbrigði og lykilinnviði samfélagsins.“
„Þetta er mjög breiðvirk aðgerð sem er til þess fallin að knýja á um gerð kjarasamnings við Samtök atvinnulífsins.“
Aðspurður um aðkomu stjórnvalda að málinu segir Halldór að SA hafi alltaf talað fyrir því að kjaradeilur verði útkljáðar við samningsborðið og hann segir þá afstöðu ekki hafa breyst.
„Hins vegar höfum við vakið athygli á því og reynt að knýja á um að atkvæðagreiðsla fari fram um þá miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari hefur lagt fram vegna þess að við getum ekki unað því að aðilar í samfélaginu, sama hvort það eru einstaklingar, stéttarfélög eða félög atvinnurekenda velji sér hvaða leikreglur þeim fylgja.
Allir þurfa að spila eftir leikreglunum og þess vegna tel ég afar brýnt að atkvæðagreiðsla fari fram um þá miðlunartillögu sem þegar er komin fram í þessari deilu og er hugsuð til að höggva á þann Gordíons-hnút sem deilan er sannarlega komin í.“