Þriggja ára dómur fyrir nauðgun staðfestur

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómur Landsréttar skuli vera …
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómur Landsréttar skuli vera óraskaður. Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar frá í júní síðastliðnum, þar sem maður var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga konu sem hann átti í kynferðislegu sambandi við. Landsréttur sneri þá við sýknudómi héraðsdóms.

Ekki féllst Landsréttur á að brotaþoli og maðurinn hefðu verið í nánu sambandi og því ekki um brot í nánu sambandi að ræða. 

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa af ásetningi haft kynferðismök við konuna án samþykkis hennar. Atvikið átti sér stað í apríl árið 2019, þar sem dæmdi þvingaði brotaþola til munnmaka og haft samræði við hana í tvígang, með því að beita ólögmætri nauðung. Þá kleip hann hana, sló hana ítrekað í andlit og líkama, beit hana, reif í hár hennar og tók hana kverkataki, þannig að hún átti erfitt með andardrátt.

Greiðir allan kostnað

Loks lét hann af háttsemi sinni eftir að brotaþoli bað hann ítrekað að hætta. Landsréttur komst að því að hann hefði með framangreindri atlögu sinni ógnað lífi, heilsu og velferð brotaþola á alvarlegan og sérstaklega meiðandi hátt og hún hlotið roða, mar, bit og klórför, þar á meðal á baki, handleggjum, rassi, hálsi og andliti. 

Manninum var gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, 1.914.203 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem námu 1.785.600 krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka