Trúir því að brúin rétti úr sér og jafni sig

Brúarflokkur Vegagerðarinnar á Hvammstanga við störf á brúnni yfir Svartá.
Brúarflokkur Vegagerðarinnar á Hvammstanga við störf á brúnni yfir Svartá. Ljósmynd/Aðsend

„Við létum reyna á að fá stóra vél á staðinn og prófa að lyfta brúnni og freista þess að gera hana bráðabirgðafæra. Brúin rétti ótrúlega mikið úr sér og við fyrstu sýn virðast bitarnir vera óskemmdir,“ segir Vilhjálmur Arnórsson, yfirverkstjóri brúarflokks Vegagerðarinnar á Hvammstanga.

Krapa­flóð í Svar­tá stoppaði á brúnni að bæn­um Barkarstöðum á mánudaginn fyrir rúmri viku síðan með þeim af­leiðing­um að áin fann sér far­veg vest­an við brúna, yfir veg­inn að bæn­um og fólkið á bænum varð samstundis innlyksa.

Brúin var gerð fær og komst fólkið fyrst aftur yfir hana á fimmtudagskvöld.

Aðgerðir gengu vel

„Það var mikil spenna á brúnni og ofboðsleg þvingun. Ég veit ekki hversu mikill þungi af ís sem lá á henni og hélt henni í spennu. Það gekk svolítið mikið á þegar verið var að lyfta brúnni úr ísnum og grafa hann frá henni rólega.“

Hann segir eftir að koma í ljós hvað gerist þegar farið verður að keyra brúnna.

„Það er pínulítil sveigja á henni ennþá en ég hef nú trú á að hún klári að rétta úr og jafni sig við umferð,“ segir Vilhjálmur.

Brúin yfir Svartá upp að Barkarstöðum er rétt tæpir 30 metrar á lengd og milli 28 og 29 tonn að þyngd.

Komust á árshátíð

Víðir Már Gísla­son og sam­býl­is­kona hans Linda Carls­son reka sauðfjárbú á Barkarstöðum þar sem þau búa ásamt fjór­um börn­um á grunn­skóla­aldri.

Víðir sagðist í síðustu viku verða fyrir vinnutapi en hann er skóla­bíl­stjóri í Húna­byggð. Þá sagði hann hætt við því að krakkarnir myndu missa af árshátíð í skólanum á fimmtudaginn var.

Víðir gat gengið yfir brúnna með krakkana á fimmtudagskvöld áður en brúin var orðin fær á föstudaginn og árshátíðarupplifuninni var bjargað.

„Þeim tókst að hífa brúnna í rétta stöðu og svo var vegurinn lagaður. Þeir voru hérna í einhverja þrjá eða fjóra daga. Þetta var nú ekkert stórmál,“ segir Víðir.

Ljósmynd/Aðsend
Brúin yfir Svartá upp að Barkarstöðum er rétt tæpir 30 …
Brúin yfir Svartá upp að Barkarstöðum er rétt tæpir 30 metrar á lengd og milli 28 og 29 tonn að þyngd. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert