Verkbann Samtaka atvinnulífsins á félagsmenn Eflingar hefur nú verið samþykkt en þetta var tilkynnt rétt í þessu.
Atkvæðagreiðslu um verkbann SA á Eflingu lauk klukkan fjögur í dag en niðurstöðurnar voru kynntar núna klukkan sex í kvöld. Aðildarfyrirtæki SA samþykktu með afgerandi meirihluta verkbann á félagsmenn Eflingar. Samkvæmt SA var vægi atkvæða mismikið eftir stærð fyrirtækja. Greiðir hvert fyrirtæki því mörg atkvæði og var atkvæðafjöldi fyrirtækja miðaður við greidd félagsgjöld.
94,73 prósent greiddra atkvæða kusu með verkbanni en einungis 3,32 prósent atkvæða kusu gegn verkbanni. Öll aðildarfélög SA höfðu atkvæðisrétt um verkbannið en 87,8 prósent aðildarfélaga SA greiddu atkvæði.
„Þetta eru þungbær skref sem Samtök atvinnulífsins eru að stíga hér í dag og þau ber að skoða sem varnaraðgerð gegn vinnustöðvunum Eflingar. Samtökin líta á þessa aðgerð sem síðasta úrræðið sitt til að knýja á um kjarasamningsgerð,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, þegar hann ræddi við blaðamenn í dag eftir að niðurstöður kosningarinnar höfðu verið kynntar.
Halldór segir að um nauðvörn sé að ræða og að þetta hafi verið síðasta úrræði Samtaka atvinnulífsins til að bera hönd fyrir höfuð sér.
„Það er ljóst að þær verkfallsaðgerðir sem við höfuð séð koma til framkvæmda á hverjum degi munu valda gífurlegu fjárhagslegu tjóni og hafa mikil áhrif á samfélagið í heild sinni.“
Verkbannið tekur gildi viku eftir að SA hefur sent tilkynningu til Eflingar og ríkissáttasemjara. Mun því verkbannið að öllu óbreyttu hefjast á hádegi fimmtudaginn 2. mars.
Þegar verkbannið tekur gildi munu engir þeirra rúmlega 20 þúsund manna, sem starfa eftir kjarasamningum Eflingar og SA á almennum vinnumarkaði, sækja vinnu og þeir þiggja ekki laun eða önnur réttindi á meðan á því stendur.