Fjöldi þeirra sem hefur fengið innlögn á göngudeildinni á Vogi vegna ópíóðafíknar hefur aukist mjög síðastliðið ár og er meirihluti þeirra sem er að leggjast inn yngri en 35 ára. Þetta segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi, í samtali við mbl.is.
Fram kom í frétt mbl.is fyrr í vikunni að þrír ungir karlmenn hafi látist úr neyslu ópíóðalyfja í síðustu viku, þar af einn sem var að bíða eftir meðferð.
„Flest af þessu fólki sem er í alvarlegri stöðu er samt mjög nálægt okkur, nálægt heilbrigðiskerfinu, og er að leita til okkar eftir þjónustu, en deyr samt. Þetta er rosalega alvarlegur fíknisjúkdómur og það er gríðarlega sorglegt að sjá á eftir fólki sem er svona nálægt manni,“ greinir Valgerður frá og segir fólkið jafnvel búið að ná sér þegar það fái bakslag. „Þetta er erfiður sjúkdómur að eiga við.“
Dæmi um lyf sem eru misnotuð eru lyfseðilsskyldu lyfin Contalgin, Oxycontin og Fentanyl.
Almennt er það þannig að um þriðjungur þeirra sem kemur í meðferð á Vog er konur og tveir þriðjuhlutar karlar. Hlutfallið er svipað þegar kemur að ópíóðafíkn, að sögn Valgerðar. „Ópíóðarnir er mjög vaxandi vandi þeirra sem kemur hérna inn. Við höfum svo sannarlega reynt að koma til móts við það.“
Hún bendir á að af þeim sem hafa komið á Vog vegna þessarar fíknar síðustu þrjú árin hafi 40% snúið þangað aftur innan 12 mánaða í endurinnlögn. Á síðasta ári voru um 250 til 300 virkir í hverjum mánuði í gagnreyndri lyfjameðferð við ópíóðafíkn á göngudeildinni. Til samanburðar voru þeir um 120 árið 2014. „Þessi meðferð bjargar mjög mörgum mannslífum,“ segir Valgerður og bætir við að mikilvægt sé að viðurkennd, gagnreynd lyfjameðferð sé í boði. Þar er fólki gefið Meþadón, Suboxone og Buvidal. Síðastnefnda lyfið er notað í forðasprautu sem er gefin einu sinni í mánuði undir húð. „Það er mjög mikil sátt og ánægja með lyfið. Skjólstæðingar eru mjög ánægðir og það er fullt af gangandi kraftaverkum hérna.“
Valgerður tekur þó fram að í fyrra hafi 14 dáið úr þessum hópi sem hefur fengið umrædda lyfjameðferð, en meðalaldur þeirra sem létust var um 40 ár. „Þetta er alltaf svo sláandi og nístandi. Þetta er ungt fólk sem gæti átt allt framundan. Þetta er svo sorglegt,“ segir hún.
Að sögn Valgerðar gæti Vogur veitt mun meiri aðstoð ef SÁÁ fengi aukið fjármagn frá stjórnvöldum, fyrst og fremst til að geta ráðið fleira starfsfólk, því plássið sé nægt. Til marks um umfang starfseminnar bendir hún á að í fyrra hafi SÁÁ sinnt 3.500 einstaklingum í 28 þúsund skipti. „En við getum gert meira. Þörfin er meiri og við erum með sérhæfingu í að sinna þessum hópi á öllum stigum, bæði við skaðaminnkun og líka til að ná bata en við myndum svo sannarlega vilja gera meira og erum að suða um að ríkið borgi það sem við gerum nú þegar,“ bendir hún á.
Samningur SÁÁ við ríkið kveður á um að stofnunin þjónusti 90 manns í hverjum mánuði vegna lyfjameðferðar við ópíóðafíkn og hefur samningurinn ekki verið uppfærður frá árinu 2014. Þrátt fyrir það tekur deildin á móti vel á fjórða hundrað manns í hverjum mánuði. „Það þarf að vera skilningur á því hversu hættulegt sjúkdómsástand þetta er og það þarf að sinna þessu fólki betur.“
Spurð segir hún aðgengið að ópíóðalyfjum virðast vera mjög auðvelt. „Það er allt annar handleggur og risa áhyggjuefni,“ segir Valgerður.