Boðið verður upp á meistaranám í afbrotafræði við Háskóla Íslands frá og með komandi haustmisseri. Boðið er upp á námið í samstarfi við stofnanir innan íslenska réttarkerfisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
„Afbrotafræðin sem sjálfstæð fræðigrein í háskólum hefur vaxið mjög á undanförnum áratugum í öðrum ríkjum. Þá hafa afbrotafræðinámskeið við HÍ notið mikilla vinsælda og almennt mikilvægi afbrotafræðinnar aukist,“ er haft eftir Margréti Valdimarsdóttur, dósent í félags- og afbrotafræði, í tilkynningu.
Margrét hefur unnið að undirbúningi námsleiðarinnar ásamt hópi samstarfsfólks innan félagsfræðinnar. Auk hennar koma meðal annars prófessorarnir Helgi Gunnlaugsson, Jón Gunnar Bernburg og Þóroddur Bjarnason að skipulagningu og kennslu í náminu. Þá verða sérfræðingar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra einnig meðal kennara á námsleiðinni.
Í náminu stendur val nemenda á milli tveggja kjörsviða, rannsóknartengdrar afbrotafræði og hagnýtrar afbrotafræði. Þá mun nemendum gefast færi til starfsþjálfunar.
„Rannsóknartengda námslínan mun nýtast fólki sem hefur áhuga á að starfa við rannsóknir, hvort sem það er við greiningu gagna fyrir stofnanir í réttarkerfinu eða við fræðilegar rannsóknir, og verður frábær grunnur að doktorsnámi í afbrotafræði við erlenda háskóla.
Hagnýta leiðin mun nýtast fólki sem hefur áhuga á að starfa við löggæslu eða í öðrum störfum innan réttarvörslukerfisins, félagsþjónustunnar eða hjá öðrum stofnunum þar sem þekking og skilningur á samfélaginu er mikilvæg,“ segir í tilkynningunni.