Ekki víst að Borgarskjalasafnið verði lagt niður

Borgin skoðar aðra valmöguleika um framtíð Borgarskjalasafns.
Borgin skoðar aðra valmöguleika um framtíð Borgarskjalasafns. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg skoðar nú þrjá valkosti um framtíðarfyrirkomulag Borgarskjalasafns.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Tillaga borgarstjóra hlotið gagnrýni

Á borgarráðsfundi í september í fyrra var lagt fram bréf frá þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar um tillögu að stefnumótun um framtíðarskipan starfsemi Borgarskjalasafns. Einnig var lagt til að skoða nánara samstarf eða frekari þjónustukaup frá Þjóðskjalasafni Íslands. 

Í kjölfarið var stýrihópur skipaður til að skoða málið. Hópurinn skilaði af sér valkostagreiningu um framtíðarfyrirkomulag skjalasafnsins í janúar og lagði fram þrjá valkosti. Meðal tillagna var að skjalasafnið yrði lagt niður.

Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Á borgarráðsfundi 16. febrúar lagði Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri til að farin yrði sú leið að leggja skjalasafnið niður. Afgreiðslu þeirrar tillögu var frestað.

Hefur tillaga borgarstjóra síðan verið gagnrýnd úr ýmsum áttum.

Óbreytt eða samstarf

Samkvæmt tilkynningu frá borginni virðist sem að nú sé verið að skoða hinu tvo valmöguleikana betur. 

Þeir eru í fyrsta lagi að borgin haldi áfram að reka skjalasafnið og í öðru lagi að Borgarskjalasafnið og Þjóðskjalasafnið hefji samstarf sín á milli, með áherslu á samnýtingu á húsnæði, stafrænum innviðum og mannauði.

Umsagna að vænta

Á borgarráðsfundi 16. febrúar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna til að óskað yrði eftir umsögnum frá fagfólki og hagsmunaaðilum um framtíðartilhögun safnsins.

Í tilkynningunni frá borginni segir að óskað hafi verið eftir umsögnum frá stafrænu ráði Reykjavíkurborgar, menningar,- íþrótta- og tómstundaráði, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni. Segir að þær liggi fyrir þegar málið verður aftur tekið fyrir á fundi borgarráðs næsta fimmtudag, 2. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert