Skætt afbrigði fuglaflensu, sem geisað hefur í Evrópu síðan haustið 2021, heldur áfram að breiðast út. Víða um heim hefur flensan valdið dauða fjölda villtra fugla og miklu tjóni í alifuglarækt.
Matvælastofnun vekur athygli á að enn er hæsta viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu í gildi hér á landi og sérstakar reglur um sóttvarnir, samkvæmt tilkynningu.
Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin hefur vakið athygli á mögulegri aðlögun veirunnar að spendýrum og fólki og hvetur öll aðildarríki sín til að hafa aukið eftirlit með villtum fuglum og alifuglum og herða sóttvarnir til að draga úr útbreiðslu.
Eins og áður eru alifuglaeigendur minntir á að gæta ítrustu sóttvarna og tilkynna um grunsamleg veikindi eða ef óvenjulega margir alifuglar drepast án tafar til stofnunarinnar. Þá er almenningur beðinn um að halda áfram að tilkynna um dauða og veika villta fugla.