Sæþór Benjamín Randalsson, formaður stjórnar vinnudeilusjóðs Eflingar, vill ekki tjá sig um þá ákvörðun stjórnarinnar að auglýsa hvorki eftir né taka við umsóknum vegna mögulegs tekjutaps félagsmanna vegna verkbanns, sem SA hefur samþykkt.
Þegar mbl.is náði tali af Sæþóri sagðist hann ekki ætla að svara neinum spurningum og lagði á áður en blaðamaður náði að klára fyrirspurn sína.
Samninganefnd Eflingar styður ákvörðun stjórnar vinnudeilusjóðsins, sem hefur þó verið töluvert gagnrýnd af ýmsum aðilum. Þar á meðal meðlimum stjórnar Eflingar.
Agnieszka Ewa Ziółkowska, varaformaður Eflingar, benti á það í færslu á Facebook-síðu sinni í gær að það væri ekkert í reglum Eflingar um vinnudeilusjóð sem hindraði það að greiða félagsmönnum í verkbanni.
Það væri í raun markmið sjóðsins að styrkja félagsmenn bæði í verkföllum og verkbönnum þegar félagið ætti í vinnudeilum. Sagði Agnieszka það aðeins ákvörðun formanns Eflingar að greiða ekki úr sjóðnum.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í færslu á Facebook-síðu sinni í morgun að það væri ákvörðun stjórnar vinnudeilusjóðsins hvort greiða ætti félagsmönnum styrki úr sjóðnum í verkbanni eða ekki.
„Í stjórn sjóðsins eru ákvarðanir teknar, um t.d. hver upphæð verkfallsstyrks skuli vera fyrir meðlimi, ásamt öðru. Einnig er það stjórnar sjóðsins að ákveða hvort að rétt sé að verða við skipunum frá Halldóri Benjamín þegar hann fyrirskipar áhlaup á sjóðinn í þeim tilgangi að tæma hann og rústa þar sem möguleikum Eflingar á því að geta farið í verkföll,“ skrifaði Sólveig meðal annars á Facebook í morgun.
„Sem betur fer er stjórn vinnudeilusjóðs Eflingar ekki mönnuð vitfirringum og strengjabrúðum sturlaðrar yfirstéttar heldur fullorðnu fólki sem skilur ábyrgð sína í grafalvarlegu ástandi, hefndaraðgerð hinna ríkustu gagnvart þeim sem minnst eiga. Hefndaraðgerð sem afhjúpar með öllu grimmd og mannhatur þeirra sem telja sig eigendur alls á þessu landi,“ skrifaði hún jafnframt.