Hundruð ferðamanna gætu lent í vandræðum

Verkföll Eflingar hafa haft veruleg áhrif á starfsemi hótela
Verkföll Eflingar hafa haft veruleg áhrif á starfsemi hótela mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búist er við að hundruð ferðamanna muni lenda í vandræðum með að finna sér gistingu á næstu dögum, eftir að hafa verið afbókaðir vegna verkfalla hótelstarfsmanna Eflingar.

Þetta kemur fram í samtali við Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Ferðamálastofa hefur sett upp neyðarlínu sem ferðamenn geta leitað til ef þeir eru gistingarlausir. Þetta var gert til að bregðast við verkfallinu og hafa þegar borist um 200 símtöl.

Áhrif verkfallanna tímabundin

Jóhannes segir að verkföllin séu löngu farin að koma fram í bókunarstöðu, þar sem að hótelin sem verkfallið snertir hafi lokað fyrir bókanir. Þetta hafi þó áhrif á alla virðiskeðju ferðaþjónustunnar og muni þýða að upplifun gesta verði ekki góð.

Hann metur þó áhrifin á ferðaþjónustuna í heild tímabundin, þrátt fyrir að áhrifin á hótelin þar sem fólk er í verkfalli geti orðið til lengri tíma, vegna áhrifa á einkunnargjöf og annað slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert