„Við fordæmum þessa ólögmætu innrás og henni verður að linna strax,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ræðu sem hún hélt á Alþingi, í tilefni þess að á morgun verður eitt ár liðið frá innrás Rússa í Úkraínu.
Katrín sagði ár vera liðið síðan fulltrúar allra flokka hér á landi fordæmdu innrásina og það væri aftur gert í dag.
Hún sagði öll stríð vera stríð gegn venjulegu fólki. Saklaust fólk hefði þurft að leita skjóls í myrkum kjöllurum, fjöldamorð verið framin og fjölskyldum sundrað.
Nefndi hún að stríðið væri skýlaust brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðalögum og bætti við að íbúar Úkraínu, Volodimír Selenskí, forseti landsins, og þarlend stjórnvöld hafi sýnt mikið hugrekki.
Katrín sagði hnattrænar aðgerðir í loftslagsmálum hafa liðið fyrir stríðið, rétt eins og mannréttindi, jafnréttismál, fæðuöryggi í fátækustu ríkjum heims og orkuöryggi.
„Friður má ekki byggjast á kúgun og yfirgangi þjóða yfir öðrum þjóðum“ sagði hún jafnframt og talaði þess í stað um réttlátan frið. Hann væri forsenda allra framfara.
Hún þakkaði þingmönnum fyrir breiða samstöðu um stuðning við Úkraínu og einnig landsmönnum fyrir þeirra stuðning hefði hlýja verið send frá Íslandi til Úkraínu.
Katrín sagði stríðið hafa vitaskuld vakið umræðu um öryggis- og varnarmál í okkar heimshluta og áfram þurfi að vera á varðbergi. Ísland muni áfram gæta að netöryggi og neðansjávarköplum.
„Ísland stendur með Úkraínu. Sá stuðningur hefur birst í verki,“ sagði hún jafnframt og benti á að stjórnvöld hefðu veitt rúmlega 2,1 milljarð króna í mannúðar- og efnahagsstuðning til Úkraínu.
Hún sagði að draga þyrfti til ábyrgðar þá sem hefðu framið stríðsglæpi í Úkraínu og að áhersla verði lögð á það með formennsku Íslands í Evrópuráðinu.