Laus blöð og Ljósgildran tilnefnd

Höfundarnir Ragnar Helgi Ólafsson og Guðni Elísson.
Höfundarnir Ragnar Helgi Ólafsson og Guðni Elísson. mbl.is/Arnþór

Ljóðabókin Laus blöð eftir Ragnar Helga Ólafsson, sem Bjartur gefur út, og skáldsagan Ljósgildran eftir Guðna Elísson, sem Lesstofan gefur út, eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt í Gunnarshúsi núna kl. 11. 

Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við 75. þing Norðurlandaráðs sem haldið verður í Osló 31. október. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur sem samsvarar rúmum 6,2 milljónum íslenskra króna.

Hér má sjá listann yfir allar tilnefndar bækur ársins 2023: 

  • Frá Álandseyjum er tilnefnd ljóðafrásögnin Konsten att inte hitta sig själv på Bali eftir Zöndru Lundberg. 
  • Frá Danmörku eru tilnefnd frásögnin Fanden tage dig: Beretning om et kvindedrab eftir Niels Frank og skáldsagan Georg-komplekset eftir Kirsten Hammann. 
  • Frá Finnlandi eru tilnefndar skáldsögurnar Musta peili eftir Emmu Puikkonen og Den stora blondinens sista sommar eftir Peter Sandström.  
  • Frá Færeyjum er tilnefndar bækurnar Karmageitin og Gentukamarið eftir Marjun Syderbø Kjelnæs en um er að ræða ljóð og leikrit.  
  • Frá Íslandi er tilnefnd ljóðabókin Laus blöð eftir Ragnar Helga Ólafsson og Ljósgildran eftir Guðna Elísson. 
  • Frá Grænlandi er tilnefnd skáldsagan Qivittuissuit akornanniinnikuuvunga eftir Katrine Rasmussen Kielsen.  
  • Frá Noregi eru tilnefndar skáldsögurnar Kniven i ilden eftir Ingeborg Arvola og Forbryter og straffeftir Kathrine Nedrejord. 
  • Frá samíska málsvæðinu er tilnefnd frásögnin Jaememe mijjen luvnie jealaeftir  Anne-Grethe Leine Bientie og Biernu Leine Bientie. 
  • Frá Svíþjóð eru tilnefnd myndræna skáldsagan Ihågkom oss till liv eftir Joönnu Rubin Dranger og ritgerðarsafnið En bok för Ingen eftir Isabellu Nilsson. 

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk, ljóðabók, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á menningarsamkennd Norðurlanda og að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði lista.

Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi. Skrifstofa Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014.

Allar nánari upplýsingar um verðlaunin má nálgast á vefnum: norden.org/is/bokmenntaverdlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert