„Þegar framtakið hófst dóu þúsundir barna árlega úr lömunarveiki um allan heim og enn fleiri urðu lömuð fyrir lífstíð. En með verkefninu hafði lömunarveiki verið að mestu útrýmt eða um 99,9%. Nú eru hins vegar blikur á lofti þar sem fleiri tilfelli greinast í heiminum og því mikilvægt að halda fullum styrk í þessari mikilvægu baráttu,“ segir Davíð Stefán Guðmundsson, forseti Rótarý Reykjavíkur Miðborgar, en stærsta einstaka verkefni alþjóðlega Rótarýsjóðsins er svonefnt PolioPlus-verkefni sem hófst 1985. Markmiðið með því er að útrýma lömunarveiki í heiminum.
Alþjóðlegi Rótarýdagurinn er í dag. Á þessum degi er kastljósinu varpað á þau áhrif sem hreyfingin hefur á alþjóðlegt samfélag með daglegu starfi og í gegnum úthlutanir úr einu af flaggskipum sínum, Rótarýsjóðnum. „Sjóðurinn styrkir ýmis samfélagsleg verkefni og einstaklinga, en líf þeirra einstaklinga sem nýta sér þau tækifæri til menntunar og vistaskipta sem Rótarý býður upp á í formi styrkja til náms erlendis hefur oft á tíðum umbreyst í kjölfar slíkra styrkja,“ segir Davíð.
Rótarýsjóðurinn var stofnaður árið 1928. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna þau verkefni sem hreyfingin vinnur að í þeirri viðleitni sinni að skapa betri og friðsamari heim, með því að taka þátt í verkefni er tengjast öflun drykkjarvatns og hreinlæti, bættri heilsu, stuðningi við grunnmenntun og baráttu gegn fátækt. „Sjóðurinn er einn öflugasti hjálparsjóður heims þar sem nánast hver króna eða dollari sem gefinn er til sjóðsins rennur beint til þeirra verkefna sem honum er ætlað að sinna,“ segir Davíð.
Rótarýhreyfingin, með stuðningi Bill og Melindu Gates, hefur leitt lömunarveikiverkefnið og unnið að því í nánu samstarfi við Rótarýklúbba og stjórnvöld á viðkomandi svæðum svo og Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (WHO). „Fyrir hvern dollara sem Rótarý leggur til PolioPlus veitir sjóður Bill og Melindu Gates tvo til sjóðsins. Þetta sýnir þeirra mikla traust til Rótarýsjóðsins,“ segir Davíð.
Nánar er fjallað um Rótarýsjóðinn í Morgunblaðinu í dag.