Viðar Guðjónsson
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segist þess fullviss að málflutningur Agnieszku Ewu Ziólkowsku varaformanns Eflingar og Ólafar Helgu Adolfsdóttur ritara Eflingar eigi ekki upp á pallborðið hjá félagsmönnum.
Segir hún þær hvorki hafa skynsemi né heiður.
„Þær hafa engan skilning á samskiptum vinnuaflsins og auðstéttarinnar, engan skilning á dýnamík félagsins og eru í engum tengslum við félagsfólk,“ sagði Sólveig Anna í samtali við mb.is á baráttufundi Eflingar í Iðnó í hádeginu í dag.
Eins og fram hefur komið stefndi Ólöf Helga Eflingu, SA og ríkissáttasemjara fyrir Félagsdóm í þeim tilgangi að Eflingarfélagar fengju að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
Sú stefna verður tekin fyrir eftir helgi.
Þá hefur Agniezka meðal annars sagt að hún telji að Efling eigi að greiða félagsmönnum úr verkfallssjóðum komi til verkbanns. Efling hefur ekki fallist á það.
„Það er leiðinlegt fyrir þær að þær séu tilbúnar til þess að opinbera sig aftur og aftur sem manneskjur án skynsemi og án heiðurs. Það segir allt um þær og eiginlega ekki neitt annað,“ segir Sólveig.