Vill reka sendiherra Rússa úr landi

Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, gagnrýnir mjög sendiherra Rússlands.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, gagnrýnir mjög sendiherra Rússlands. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

„Það væri verðugt að minnast eins árs afmælis stríðs Rússa með því að skipa sendiherranum að yfirgefa Ísland. Hlutverk hans er ekki að virða fullveldi Íslands heldur að grafa undan því og friði í okkar heimshluta.“

Þetta skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, á vefsíðu sína, en færslan ber heitið „Rekum rússneska sendiherrann“. Þar bendir Björn á að hér heyrist „hvorki hósti né stuna“ frá íslenskum stjórnvöldum þótt sendiherra Rússlands á Íslandi, Mikhaíl Noskov, fari móðgandi orðum um utanríkisráðherra Íslands og rægi Íslendinga og íslenskt samfélag í rússneskum fjölmiðlum.

Bendir Björn á að Rússland okkar daga sé í raun lokaðra land en Sovétríkin sálugu voru á sínum tíma. Er það vegna „sérstakrar aðgerðar“ innrásarliðs Moskvuvaldsins í Úkraínu. Íbúar Rússlands búi nú við sífellt meiri harðstjórn og minnkandi samskipti við erlend ríki, nú síðast á þriðjudaginn var.

Þá flutti Rússlandsforseti ræðu sem m.a. breytti fyrirmælum um markmið utanríkisstefnu Rússlands. Verður nú horfið frá öllum áformum um samstarf við Vesturlönd og hvergi minnst á virðingu fyrir fullveldi nágrannaríkja Rússlands. Höfuðmarkmiðið er að gæta þjóðarhagsmuna Rússlands eins og þeir eru skilgreindir af Moskvuvaldinu.

Mikhaíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, fær óáreittur að rægja …
Mikhaíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, fær óáreittur að rægja Íslendinga og íslenskt samfélag. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Ómerkileg áróðursgrein sendiherrans

Utanríkismálanefnd þings Kanada birti í vikunni álit þar sem stjórn Kanada er hvött til að reka úr landi rússneska diplómata sem stunda starfsemi sem fellur ekki að hlutverki þeirra.

Eins ákvað hollenska ríkisstjórnin að reka nokkra rússneska diplómata úr landi vegna ítrekaðra tilrauna Rússa til að koma njósnurum til starfa í Hollandi. Ræðisskrifstofa Hollands í Pétursborg var einnig lokað sem og viðskiptaskrifstofu Rússa í Amsterdam.

„Hér heyrist hvorki hósti né stuna frá íslenskum stjórnvöldum þótt Mikhaíl Noskov, sendiherra Rússa, fari móðgandi orðum um utanríkisráðherra Íslands og rægi Íslendinga og íslenskt samfélag í rússneskum fjölmiðlum,“ ritar Björn og bendir að lokum á „ómerkilega áróðursgrein“ Noskov sendiherra í Morgunblaðinu í gær, miðvikudag. Tilefni greinarinnar er ársafmæli innrásar Rússa í Úkraínu.

„Er ekki að efa að fyrir þetta fær hann [Mikhaíl Noskov sendiherra] nokkrar stjörnur í kladda sinn í Kreml og hjá njósnurunum þar,“ ritar Björn áður en hann lýkur grein sinni á þeim orðum að skipa ætti Noskov sendiherra að yfirgefa Ísland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert