Ákvað að vakna ekki aftur

​Allt frá barnæsku hefur Rut Eiríksdóttir glímt við offitusjúkdóm og var strax komin í megrun um átta ára aldur. Aðeins þrettán ára gömul þróaði Rut með sér átröskun og upp úr tvítugu fann hún að hún hafði enga stjórn. Eftir að hafa barist áfram í áraraðir og prófað alla megrunakúra í bókinni, leitaði Rut sér hjálpar hjá efnaskipta- og offituteyminu á Reykjalundi og á í dag heilbrigt samband við mat. Rut, sem er hjúkrunarfræðingur hjá offituteymi Klíníkinnar, hyggst nú stofna, ásamt fleira fólki, samtök fólks með offitu þann 4. mars, á alþjóðlega offitudeginum. Rut settist niður með blaðamanni í Dagmálsmyndveri Árvakurs og sagði sína sögu.

Fékk ekki inni á Reykjalundi

Bróðir Rutar kljáðist við offitu alla ævi og var saga hans lík sögu Rutar.

„Fyrir tveimur og hálfu ári ræddi hann við mig og sagðist ekki skilja af hverju hann léttist ekki, þrátt fyrir langa göngutúra og ræktina. Ég útskýrði fyrir honum að þetta snerist ekki um viljastyrkinn; þetta væri ekki leti. Það er ekki hægt að segja; borðaðu minna og hreyfðu þig meira. Hann var mjög svekktur og ég ráðlagði honum að skoða prógrammið á Reykjalundi og aðgerð. Hann tók vel í það og sótti um en fékk því miður höfnun. Hálfu ári síðar gafst hann upp og ákvað að vakna ekki aftur. Það gerir mig mjög reiða,“ segir Rut og segist telja að offitan hafi verið ein ástæða fyrir því að hann hafi tekið sitt eigið líf.

„Hann var ekki með sykursýki eða háþrýsting,“ segir hún og segir það ef til vill hafa spilað inn í að hann fékk höfnun, en segir hann klárlega hafa verið í mikilli yfirþyngd og þurft á meðferð að halda.

„Ég myndi vilja að það væri hægt að bjóða upp á meðferð fyrir alla með aðgang að sálfræðingum og þverfaglegu teymi. Það er verið að stofna núna samtök fólks með offitu og stofnfundur verður 4. mars á degi offitunnar,“ segir Rut en nánar er rætt við Rut í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og einnig má horfa á viðtalið í heild í Dagmálum hér.

Ef þú ert að upplifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert