Stein Ove Tveiten, framkvæmdastjóri Arctic Fish, segir algjörlega óvíst um hversu mikið tjón hafi verið að ræða þegar kviknaði í kerhúsi fyrirtækisins á Tálknafirði. Starfsmenn fyrirtækisins hafi ekki enn fengið að skoða vettvanginn almennilega vegna öryggisráðstafana.
„Seint í gærkvöldi kláraði slökkviliðið sína vinnu. Lögreglan hefur núna verið á vettvangi að rannsaka brunann,“ segir Stein Ove í samtali við mbl.is.
Stein Ove segist ekki búast við því að það hafi verið altjón vegna brunans.
„Svæðið sem er lengst frá veginum er í grundvallaratriðum í góðu ásigkomulagi. Svæðið sem er næst veginum er í slæmu ástandi,“ segir hann.
„Við munum meta ástandið betur eftir helgi með öllum aðilum sem koma að málinu.“