Dæmd fyrir að taka börnin úr landi

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjaness frá því í fyrra.
Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjaness frá því í fyrra. mbl.is/Hanna

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness sem dæmdi konu í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa svipt sambýlismann sinn valdi og umsjón með börnum þeirra og farið með þau úr landi og haldið þeim þar án leyfis mannsins.

Parið var í skráðri sambúð og héldu þau sameiginlegt heimili með tveimur börnum þegar konan fór með börnin úr landi. Þau hafi því farið með sameiginlega forsjá barnanna.

„Samkvæmt 5. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 feli forsjá barns að íslenskum lögum í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þeirra,“ segir í dómi Landsréttar.

Foreldrarnir hafi hvorugt haft ríkari rétt en hitt til að taka ákvarðanir um málefni barna þeirra.

Heildarkostnaður á þriðju milljón

Konunni var í Landsrétti gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, 780.332 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 753.300 krónur.

Í dómi héraðsdóms frá 9. febrúar í fyrra var konan dæmd í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi ásamt því að þurfa að greiða þóknun skipaðs verjanda síns upp á 1.413.600 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert