Hnúfubakurinn strauk hafnarbakkanum

„Þetta var alveg magnað,“ segir Gísli Sæmundsson sem varð vitni að því þegar hnúfubakur leit við við Hafnarfjarðarhöfn í dag og náði af því myndskeiði.

Gísli, sem býr við höfnina en er þó uppalinn Hornfirðingur, segir vin dóttur hans hafa séð hvalinn og hringt og látið þau vita.

„Við rúlluðum bara af stað og gátum eiginlega ekki verið á betri stað, hann kom bara alveg að okkur. Það er greinilega eitthvað æti þarna, við höfum séð einhverjar fiskitorfur og hann er búinn að vera að þvælast í því.“

Sá fljúgandi torfu

Segist Gísli rétt svo hafa misst af öðru mögnuðu atviki stuttu fyrir.

„Það kom stökkvandi torfa, beint fyrir framan hann, þegar hann var að koma að bryggjunni hérna hjá okkur. Ég rétt missti af því. Það var alveg sjúklega töff,“ segir hann en það náðist ekki á myndband og þurfa því lesendur mbl.is að taka hann á orðinu þar.

„Stelpurnar mínar voru alveg [gapandi], ein varð alveg skíthrædd, þetta var alveg magnað.“

Spurður hvort hann haldi að hnúfubakurinn verði lengi í firðinum segist Gísli ekki svo viss. „Hann er búinn að vera hérna í kring eitthvað, en nei ætli hann fari ekki fljótlega. Hann er bara að eltast við eitthvað æti hérna, það fer að hverfa og þá fer hann sína braut.

En maður veit ekki, vonandi fá fleiri að sjá þetta.“

Hægt er að sjá myndskeiðið af hnúfubaknum efst í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert