Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur þremur mönnum fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og ólögmæta nauðung miðvikudaginn 11. september 2019.
Er mönnunum gert að sök að hafa svipt mann frelsi sínu í að minnsta kosti 25 mínútur eftir að hann settist inn í aftursæti bifreiðar við Árbæjarsafn.
Stuttu eftir að maðurinn settist inn í bifreiðina, sem einn hinna ákærðu keyrði, hafi hinir tveir komið í aftursætið eftir að hafa upprunalega falið sig í skotti bílsins.
Hótuðu þeir manninum með piparúða að halda kyrru fyrir í bílnum, og var honum ekið í sumarbústað við sunnanvert Elliðavatn. Veittust hinir ákærðu að manninum, úðuðu piparúða í augu hans og „slógu hann víðs vegar um líkamann með stálkylfu“, segir í ákærunni.
Hinir ákærðu hafi í kjölfarið neytt manninn til þess að afklæðast og fara ofan í Elliðavatn, ella yrði hann fyrir frekari barsmíðum, og skilið hann þar eftir kaldan og blautan.
Maðurinn hafi hlotið yfirborðsáverka og marbletti á báðum handleggjum, vinstri öxl, vinstri fótlegg og á baki, marbletti á andliti og höfði og yfirborðsáverka á augnsvæði.
Þá er krafist af hálfu brotaþola að hinir ákærðu verði dæmdir til að greiða honum rúmar tvær milljónir króna auk vaxta.