„Mamma hljóp inn og sagði að stríðið væri hafið“

Mæðgurnar Hanna og Kristína Parasiuk komu til Íslands hinn 30. …
Mæðgurnar Hanna og Kristína Parasiuk komu til Íslands hinn 30. maí árið 2022. mbl.is/Margrét Þóra

„Ég var að læra fyrir próf, fór að sofa seint og vaknaði við það að mamma hljóp inn til mín og sagði að stríðið væri hafið,“ segir hin nítján ára gamla Kristína Parasiuk, en hún flutti frá Úkraínu til Íslands ásamt móður sinni, Hönnu, skömmu eftir að Rússar réðust inn í landið. Í dag, 24. febrúar, er ár liðið frá upphafi stríðsins.

„Mamma sagði að við yrðum að flýja, en við vissum ekkert hvert við áttum að fara.”

Mæðgurnar áttu heima á fimmtu hæð í íbúðahúsi í höfuðborginni, Kænugarði, og komu til Íslands 30. maí í fyrra eftir að hafa verið um stund í Slóvakíu. Þær dvöldu á Hótel Sögu fyrstu tvær vikurnar og fengu síðan störf á veitingastaðnum og gistiheimilinu Brekku í Hrísey.

Þær fluttu á Akureyri í lok ágústmánaðar og sóttu báðar íslenskunámskeið hjá Símey. Kristína hóf nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og Hanna byrjaði að vinna á veitingastaðnum Dj Grill þar sem hún starfar enn í dag.

Keyptu 72 lítra af vatni

„Okkur datt ekki í hug að fara frá Úkraínu, við lifðum góðu lífi heima. En þegar við fórum að heyra í sprengjum nálægt heimili okkar breyttist það,“ segir Hanna.

Þær segja frá því hvernig þær reyndu að undirbúa sig í aðdraganda stríðsins.

„Nokkrum dögum áður en stríðið hófst keyptum við mat og 72 lítra af vatni, endurhlaðanlegar rafhlöður og reyndum að undirbúa okkur eins vel og við gátum,” segir Hanna.

Þær segjast ekki hafa sofið fyrstu vikuna af ótta við að einhver myndi ryðjast inn í íbúðina eða að byggingin myndi hrynja.

„Það fóru allir úr húsinu nema ég, mamma og einn nágranni. Við heyrðum síðan að það var einhver á þakinu,” segir Kristína.

„Það varð panikk á lestarstöðinni

Í lok febrúarmánaðar tóku mæðgurnar ákvörðun um flýja og héldu á lestarstöðina. Þegar þangað var komið var svo margt fólk að ómögulegt var fyrir þær að komast inn í lest. Skömmu síðar lenti sprengja um tvö hundruð metrum frá lestarstöðinni.

„Það varð panikk á lestarstöðinni, fólk hljóp í allar áttir, sumir með farangur sinn og aðrir án hans. Við gátum ekki farið með lestinni svo að við tókum leigubíl til baka og fórum heim til afa af því að við vildum ekki fara heim þar sem einhver var á þakinu,” segir Kristína. Bjuggu þær hjá honum í nokkrar vikur og reyndu að finna aðra leið úr landinu.

„Vinir okkar voru á leið burt og það var pláss fyrir einn í bílnum. Kristína fór með þeim og ég reyndi að finna út úr því hvernig ég gæti farið. Það liðu tíu dagar þar til við hittumst í Slóvakíu,” segir Hanna. Hún hafi síðan reynt að fá vinnu þar í landi án árangurs. 

Mæðgurnar fluttu norður á Akureyri í ágúst í fyrra.
Mæðgurnar fluttu norður á Akureyri í ágúst í fyrra. mbl.is/Margrét Þóra

Vissu ekkert um Ísland

„Þess vegna ákváðum við að fara annað. Við vissum ekkert um Ísland en tókum áhættuna og keyptum miða og það var tekið vel á móti okkur,“ segir Hanna.

Kristína stundar nú nám við bæði VMA og úkraínska háskólann NTU.

„Á síðustu önn voru fyrirlestrar á sama tíma svo að ég varð að finna upp á einhverju. Ég sat í tímum í VMA með fartölvuna mína og tengdist tölvunni heima í gegnum forritið Team Viewer. Svo tók ég upp fyrirlestrana úr NTU sem voru á netinu og horfði á þá þegar ég kom heim. Ég var líka á íslenskunámskeiði á kvöldin tvisvar í viku,” segir hún og bætir við að stundataflan hennar í VMA sé nú sveigjanlegri.

„Í fyrstu var erfitt að aðlagast aðstæðum hér, af því að maður er vanur hlutum sem eru ekki lengur til staðar. Það vantar fólkið sem þú varst í samskiptum við og allt annað tungumál er talað, fyrstu mánuðina skildum við ekki orð.”

Í góðum samskiptum við fjölskylduna

Segja þær það hafa verið virkilega erfitt að flýja frá heimili sínu til nýs lands og finnst skrýtið að hugsa til þess að ár sé liðið frá því að stríðið hófst.

„Þú hugsar að þú munir líklega ekki snúa aftur og tekur allt sem þú getur með þér,” segir Kristína.

„Eftir að hafa gengið í gegnum svona lagað breytist forgangsröðunin þín. Heilsan er í forgangi, að líða vel og hugsa um hvora aðra. Það er mikilvægt að skapa góð sambönd og halda sambandi við fólkið sitt,” segir Hanna.

Faðir og bræður Kristínu búa á Ítalíu og yngri systir hennar er í Úkraínu ásamt móður sinni. Hún er í góðum samskiptum við fjölskyldu sína og heyrir frá þeim í hverri viku.

Taki tíma að endurreisa Úkraínu

Spurðar hvað mæðgurnar sjái fyrir sér framundan segja þær erfitt að spá fyrir um framtíðina. Bendir Hanna á að óháð því hvenær stríðinu ljúki muni taka langan tíma að endurbyggja landið.

„Eftir nokkur ár mun ég kannski snúa aftur til Úkraínu af því að mér líkar landið mitt, en nú hef ég vinnu hér og dóttir mín er í skóla og við erum á öruggum stað,“ segir hún.

„Ég sé fyrir mér að líf mitt verði hér og ég muni læra tungumálið betur. Ég vil ekki fresta lífi mínu,” segir Kristína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert