Ragnar Sigurður Kristjánsson,
Þrátt fyrir að olíudreifingarbílstjórar Skeljungs og Olíudreifingar séu í verkfalli, er enn verið að dreifa eldsneyti til bensínstöðva á höfuðborgarsvæðinu. Þetta skýrist af því að bæði fyrirtækin eru með verktaka í vinnu hjá sér sem þurfa ekki að fara í verkfall.
Hvort fyrirtæki um sig er með tvo verktaka í fullu starfi við að dreifa olíu til stöðvanna. Þeim er enn heimilt að dreifa olíu fyrir fyrirtækið, þrátt fyrir verkföll annarra starfsmanna, þó innan ákveðinna marka.
Þegar ljósmyndari mbl.is var á ferðinni í dag, rakst hann á bílstjóra sem var að fylla á tanka Orkunnar á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði.
Verktökubílstjórarnir mega aðeins vinna innan þess vinnutíma sem þeir unnu á fyrir verkfallið og er aðeins heimilt að dreifa innan þess svæðis sem þeir störfuðu á fyrir verkfallið.
Þessi útfærsla er að sögn forsvarsmanna olíudrefingarfélaganna unnin í samstarfi við Eflingu með það fyrir augum að tryggja að ekki sé verið að ganga í verk þeirra sem eru í verkfalli.