Ræddu um frestun eða aflýsingu aðgerða

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Samsett mynd

Líflegar umræður sköpuðust í þætti Pallborðsins á Vísi, þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins voru gestir. Undir lok þáttarins dró til tíðinda, þegar að þáttastjórnandi stakk uppá því myndu loka sig inni þar til að samningur næðist.

Þá sagðist Sólveig Anna vera tilbúin að fresta verkfallsaðgerðum, gegn því að Samtök atvinnulífsins myndu fresta verkbanni sínu. Stakk Halldór frekar uppá því að þau aflýsi bæði aðgerðum sinna félaga. Sólveig segist tilbúin að fresta öllum aðgerðum ef SA kæmi að borðinu með það fyrir augum að gera Eflingarsamning fyrir Eflingarfólk.

Þá bauðst Halldór til að handsala það að SA myndu aflýsa verkbanninu, gegn því að Efling myndi aflýsa sínum aðgerðum. Sólveig handsalaði það ekki, en sagðist vera tilbúin að fara inn til ríkissáttasemjara í þeim einbeitta vilja að ná samningi fyrir Eflingu og fresta verkfallsaðgerðum. Ekkert varð því úr þessum hugmyndum, en á móti virtust bæði Sólveig og Halldór til í að skoða málin nánar ef þau væru boðuð til fundar hjá sáttasemjara.

Regin munur á aflýsingu og frestun

Ágreiningurinn virðist því standa um hvort fresta eða aflýsa eigi aðgerðum, en stór munur er þar á. Ef SA og Efling myndu aflýsa aðgerðum, þyrfti atkvæðagreiðsla um aðgerðir að fara aftur fram og síðan boða aftur til þeirra aðgerða, ef slitna myndi uppúr viðræðum.

Ef aðgerðunum yrði frestað og síðan slitna upp úr viðræðum, væri hægt að setja aðgerðir af stað að nýju án atkvæðagreiðslu, líkt og gert var með verkfall olíudreifingarbílstjóra síðastliðinn sunnudag.

Einnig kom fram í viðtalinu að Efling væri að fara fram á 50.000 króna hækkun að meðaltali á mann í kjarasamningum, en sú lína sem mörkuð var í samningum Starfsgreinasambandsins miðast við 42.000 króna hækkun að meðaltali á mann. Það eru því 8000 krónur sem um munar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert