Rostungur hefur hreiðrað um sig á höfninni á Breiðdalsvík. Hefur hann setið þar um nokkurt skeið í morgun og virðist ekkert fararsnið á dýrinu. Að sögn Árna Guðmundssonar bæjarbúa kippir rostungurinn sér lítið upp við að fólk sé að skoða hann.
Einungis heyrist hvæs í honum þegar fólk hættir sér of nærri. Hann veit ekki til þess að rostungur hafi áður látið sjá sig í bænum. „Maður kemst kannski í þriggja fjögurra metra fjarlægð við hann áður en hann lætur mann vita að það sé ekki í boði að fara lengra,“ segir Árni.
Hann segir að rostungar hafi sést á einhverjum skerjum í kringum bæinn aldrei í byggð. Einhverjir höfðu hent síld í áttina að rostungnum en hann virtist lítið kippa sér upp við það. Að líkingum kemst hann ekki að fisknum á steyptu undirlaginu vegna gríðarstórra tanna.